Skiptir máli hvernig tilkynnt er til lögreglu

Fólk var í gær hvatt til að fylgjast með mannaferðum.
Fólk var í gær hvatt til að fylgjast með mannaferðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar fólk sendir lögreglu upplýsingar í gegnum samfélagsmiðla á borð við Facebook, eru þær upplýsingar umsvifalaust komnar í hendur stórfyrirtækis í Bandaríkjunum.

Lögreglu er því ekki heimilt að kalla eftir upplýsingum í gegnum slíka miðla, að sögn Helgu Þórisdóttur, forstjóra Persónuverndar. Aftur á móti getur það talist eðlileg útvíkkun á nágrannavörslu að óska eftir því að fólk fylgist með mannaferðum og tilkynni um grunsamleg tilvik til lögreglu. 

„Það sem skiptir hér máli er hvernig þessar upplýsingar eru unnar og hvernig þær berast lögreglu.“

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar.
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Betra að biðja fólk um að senda ekki á Facebook

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gaf frá sér tilkynningu í gær þar sem fólk var hvatt til þess að fylgjast vel með mannaferðum, skrá hjá sér lýsingar á fólki, bílnúmer og jafnvel að taka ljósmyndir. Það væri svo betra að tilkynna of oft til lögreglu en of sjaldan. 

Persónuvernd hefur nú þegar skorið úr um að það standist ekki lög að lögregla óski eftir upplýsingum í gegnum samfélagsmiðla. Því hefði verið æskilegt, að mati Helgu, að það hefði verið gerð grein fyrir því í tilkynningunni, hvernig fólk ætti að haga tilkynningum sínum til lögreglu. 

„Almenn öryggis- og eignavarsla er af hinu góða, við viljum öll eiga eignirnar okkar í friði og ekki skapa umhverfi þar sem auðvelt er að stela eða skemma eignir. Að sama skapi þarf að huga að því hvernig persónuupplýsingar eru unnar í því umhverfi.“

Hverfishópar á gráu svæði

Persónuverndarlögin gilda aðallega um fyrirtæki og stofnanir. Einkasamskipti falla því utan þeirra.

Hverfishópar á Facebook, þar sem fólk deilir myndum af grunsamlegum mannferðum, geta verið á gráu svæði að sögn Helgu, „ef hóparnir eru stórir.“ 

Hún bendir á að það sé löngu ljóst að stórfyrirtækin að baki samfélagsmiðlarisunum, líkt og Meta að baki Facebook, nýti sér persónuupplýsingar notenda sinna í verulegum mæli. 

„Þessir aðilar eru að rýna alla notendur. „Ég hef ekkert að fela“ er orðið úrelt hugtak í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert