„Svört skýrsla“ vinnustaðaeftirlits

Ástþór Jón Ragnheiðarson hjá ASÍ.
Ástþór Jón Ragnheiðarson hjá ASÍ. Ljósmynd/ASÍ

Vinnustaðaeftirlit Verkalýðsfélags Suðurlands heimsótti 81 vinnustað á dögunum. Í ljós kom að í tæplega 60% tilvika er þörf á frekari eftirfylgni eftirlitsins. 6 af alls 48 tilvikum voru send áfram til frekari meðferðar hjá opinberri stofnun eða ASÍ.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, þriðjudag.

„Þetta er að mörgu leyti svört skýrsla um ástandið á svæðinu. Maður er bara hryggur yfir þessari niðurstöðu, að í meirihluta tilvika er traðkað á réttindum vinnandi fólks,“ segir Ástþór Jón Ragnheiðarson, eftirlitsfulltrúi Verkalýðsfélags Suðurlands, um niðurstöður eftirlitsins.

„Við erum ekki bara að tala um réttindi sem byggjast á kjarasamningum, heldur líka brot á húsaleigulögum og lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Það er ekki bara verið að brjóta á kjarasamningum sem stéttarfélögin gera. Sum tilvikin varða líka við lög sem gilda hér á landi.“

Sumum tilvikum ekki greitt í neitt stéttarfélag

Vinnustaðaeftirlit er samstarfsverkefni ASÍ og SA. Verkalýðsfélags Suðurlands sinnir eftirliti á sínu félagssvæði, í sveitarfélögunum Rangárþingi ytra, Rangárþingi eystra, Mýrdalshreppi, Skaftárhreppi og Ásahreppi. „Þetta snýst fyrst og fremst um að við mætum á vettvang og spjöllum við viðeigandi aðila,“ útskýrir Ástþór.

„Í 29 heimsóknum voru starfsmenn skráðir í rangt stéttarfélag og í sumum tilvikum var ekki verið að greiða í neitt stéttarfélag. Almenn brot á kjarasamningnum, t.d. var verið að greiða undir taxta, tvískiptar vaktir, hátt álag á vöktum, ekki verið að skila gjöldum, ekki verið að greiða yfirvinnu, og mörg málanna varða húsnæðismál. Þar hefur húsaleigulögum ekki verið fylgt, um rétt til uppsagnarfrests á húsnæði og þess háttar.“

Skuldi jafnvel milljónir í laun

Ástþór segir vera alvarleg dæmi um atvinnurekanda sem skuldi starfsmönnum hundruð þúsunda, jafnvel milljónir í vangoldin laun.

„Þá eru sex mál þess eðlis að við, sem verka­lýðsfé­lag, get­um ekki tekið þau að okk­ur, t.d. grunur um skattsvik og man­sal.“

Þá komst upp um 13 tilvik, í kjölfar heimsóknar eftirlitsins, fyrir tilstuðlan félagsmanna stéttarfélagsins, sem höfðu samband við eftirlitið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert