Trúir því að fari að gjósa í ágúst

Gunnar Már Gunnarsson, umboðsmaður Sjóvár í Grindavík, ætlar að trúa …
Gunnar Már Gunnarsson, umboðsmaður Sjóvár í Grindavík, ætlar að trúa því að eldgos hefjist í ágúst. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

„Best væri að sem fyrst færi að gjósa, svo létti þrýstingi þannig að við losnum við þessa stöðugu jarðskjálfta,“ segir Gunnar Már Gunnarsson, íbúi í Grindavík.

Í gær tók Morgunblaðið stöðuna í bænum sem skelfur. Á frídegi verslunarmanna voru til þess að gera fáir á ferli í sjávarplássinu, en þó mátti í nokkrum mæli sjá á leið til bæjarins bíla með farhýsi í eftirdragi. Þá væntanlega Grindvíkingar að koma heim úr helgarfrí. Geigur er í fólki.

„Fróður maður sagði mér að reikna mætti með eldgosi núna í ágúst og ég ætla trúa því uns annað kemur í ljós,“ segir Gunnar Már, sem er umboðsmaður Sjóvár í bænum sem og bæjarfulltrúi.

„Fannar Jónsson, bæjarstjórinn okkar, er í stöðugu samtali við almannavarnanefnd og vísindamenn og við í bæjarstjórn erum reglulega upplýst um það sem þar kemur fram. Í mínu aðalstarfi hjá Sjóvá fæ ég svo reglulega fyrirspurnir frá fólki sem vill hafa sín tryggingamál á hreinu vegna þessara umbrota.“

Fáir beinlínis hræddir

Gunnar segir að í sínu nærumhverfi hafi hann fáa hitt sem séu beinlínis hræddir vegna umbrotanna. „En eðlilega hugsar fólk sitt og hefur að einhverju marki lært að lifa með þessu. Eldgos og jarðskjálftar hafa verið lærdómsríkt ferli. Þrátt fyrir þetta allt gengur fólk að sínu; vinna í fyrirtækjunum fer í gang og lífið heldur áfram, hvað sem jarðhræringum líður.“

Umbrot á Reykjanesskaganum hófust snemma á árinu 2020 og voru nokkuð stöðug allt það ár. Snörp hrina jarðskjálfta fór svo af stað í febrúar á síðasta ári, sem lauk með eldgosinu sem hófst 19. mars það ár. Gosið stóð með nokkrum skammvinnum hléum í hálft ár. Og nú gera vísindamenn fyrir því að sagan endurtaki sig. Frásagnir þeirra hafa þunga og af þeim má ráða að allar líkur séu á eldgosi innan tíðar.

Viðtöl við fleiri íbúa Grindavíkur má sjá í Morgunblaðinu í dag, þriðjudag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert