„Hótanir“ auðveldi ekki samninga

Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir að áhugavert væri að heyra …
Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir að áhugavert væri að heyra seðlabankastjóra lýsa yfir áhyggjum af ójöfnuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Hótanir í aðdraganda kjarasamninga verða ekki til þess að auðvelda þá,“ segir Drífa Snædal, formaður Alþýðusambands Íslands.

Seðlabankastjóri sagði í samtali við ViðskiptaMoggann í dag að bankinn myndi bregðast við ef komandi kjarasamningar reynist óraunhæfir og kyndi undir verðbólgu.

„Hlutverk okkar er að sjálfsögðu að sækja fram um aukin lífsgæði og við munum gera það með ábyrgum hætti nú sem endranær,“ segir Drífa. Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði losna undir lok ársins.

„Undarlegt“ hjá Seðlabankanum

„Mér finnst undarlegt að skilaboð sem þessi komi frá Seðlabankanum stöðugt í aðdraganda kjarasamninga. Þetta er verkefni vinnumarkaðarins og það er augljóst að þau hagstjórnarmistök sem þegar hafa verið gerð koma illa við almenningi á Íslandi í formi hækkandi vaxta og verðbólgu,“ segir Drífa. 

Áhugavert að heyra seðlabankastjóra lýsa áhyggjum yfir ójöfnuði

Hvað áttu við með hagstjórnarmistökum?

„Hagstjórnarmistökin felast í því að hafa gripið til vaxtalækkana án þess að grípa til annarra aðgerða. Svo sem að hefta möguleika á lánasjóðsfjármagni og þá sérstaklega til stórra fjárfesta á húsnæðismarkaðnum,“ segir Drífa og heldur áfram:

„Þessir aðilar hafa spennt upp verðið og komið venjulegu fólki í koll, sem reynir að koma upp þaki yfir höfuðið. Þeir hafa verið brennsluefni fyrir verðbólgu sem við stöndum frammi fyrir nú,“ segir Drífa. og bætir við í lokin: 

„Það væri áhugavert að heyra seðlabankastjóra lýsa yfir áhyggjum af ójöfnuði á Íslandi og hvernig tryggja megi að allir njóti þeirra verðmæta sem við sköpum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert