Rauður litakóði fyrir flugumferð yfir Krýsuvík

Kort/Veðurstofa Íslands

Rauður litakóði fyrir flugumferð er nú í gildi yfir Krýsuvík vegna eldgossins við Fagradalsfjall sem hófst í dag. 

Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofunni, segir að litakóðanum hafi verið breytt um leið og staðfesting hafi borist um að eldgos væri hafið.

Rauði kóðinn merkir að möguleiki sé á því að aska berist upp í andrúmsloftið en segir þó ekki hvert búist er við að hún fari eða hvert raunverulegt hættusvæði sé. Slíkar upplýsingar koma fram í annars konar viðvörunarkerfi.

Þá merkir rauði kóði Veðurstofunnar ekki að bannað sé að fljúga yfir svæðið. Slíkar ákvarðanir liggja hjá flugmálayfirvöldum en þær eru teknar með hliðsjón af þessum upplýsingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert