Níræður og æfir alla virka daga vikunnar

„Þetta er allt of létt,“ sagði Jens þegar blaðamaður stillti …
„Þetta er allt of létt,“ sagði Jens þegar blaðamaður stillti upp lóðunum fyrir myndatökuna. mbl.is/Árni Sæberg

Það var í janúarbyrjun 1999 sem Jens Á. Ingimundarson keypti árskort í Árbæjarþreki hjá Bergþóri Ólafssyni, eða Begga, eiganda stöðvarinnar, fjárfesti og íþróttafræðingi.

„Ég var fyrsti maðurinn sem keypti árskort hjá honum Begga. Og upp frá því hef ég verið þarna en hef auðvitað mætt misjafnlega. Æfi meira með aldrinum og æfi nú alla virka daga,“ segir Jens sem heldur upp á níræðisafmælið í Veiðivötnum í dag.

Árbæjarþrek var selt World Class-keðjunni 2016. Eins og gestir World Class í Fylkishöllinni þekkja er Jens jafnan brosmildur. Hann er jafnan mættur alla virka morgna um níuleytið, allan ársins hring.

„Nú er ég að taka efri hluta líkamans og svo á mánudaginn styrki ég neðri hlutann. Þetta kenndi Beggi mér á sínum tíma og ég held því áfram.

Af gönguskíðabrettinu og í tækjasalinn

Nú byrja ég daginn á að hjóla í sjö mínútur og tek svo 11 mínútur á gönguskíðabrettinu. Þá er upphitun lokið og ég geng yfir í tækjasalinn,“ segir Jens.

Ásamt því að æfa fimm sinnum í viku fer Jens vikulega í sjúkranudd og segir hann það hjálpa sér mikið.

„Ég finn að þegar sjúkranuddið fellur niður í eina viku eða tvær fer ég að finna meira fyrir bólguhnútum. Nuddarinn heldur þessu niðri. Ég held ég þurfi að vera í þessu ævilangt,“ segir Jens og hlær við. „Hvað sem ævin verður löng,“ segir Jens sem hvetur aðra á sama reki til að stunda líkamsrækt.

„Auðvitað. Þetta er það besta sem fólk gerir eða að fara í langa göngutúra. Þetta heldur elli kerlingu fjarri. Að minnsta kosti í bili. Ég fór mikið í göngutúra en nú get ég ekki mikið gengið.“

Umfjöllunina má finna í heild sinni í Morgunblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert