„Hún er hluti af blokk sem er við það að falla“

Ragnar Þór telur
Ragnar Þór telur mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það hefur verið að molna undan þessari valdablokk sem kemur frá tíð Gylfa Arnbjörnssonar [fyrrverandi forseta ASÍ] og hefur staðið þétt á bak við Drífu,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við mbl.is um afsögn Drífu Snædal, forseta Alþýðusambands Íslands (ASÍ). 

„Hún er hluti af blokk sem er við það að falla,“ segir Ragnar Þór enn fremur. 

Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir, formaður Efl­ing­ar, sagði á Facebook-síðu sinni fyrr í dag að Drífa hafi „lokað sig inni í blokk með nán­asta sam­starfs­fólki for­vera síns, Gylfa Arn­björns­son­ar, og þeirri stétt sér­fræðinga og efri millistéttar­fólks sem ræður ríkj­um í stofn­un­um rík­is­valds­ins á Íslandi og einnig á skrif­stof­um Alþýðusam­bands­ins.“ Telur Sólveig afsögnina tímabæra.

Drífa hafi verið hálfgert eyland

Ragnar Þór segir afsögn Drífu ekki hafa komið sér á óvart.

„Ég gat ekki séð í hendi mér hvernig hún hefði getað haldið áfram að starfa í óþökk mikils meirihluta aðildarfélaga innan Alþýðusambandsins.“

Telur hann Drífu ekki hafa rækt skyldur sínar gagnvart aðildarfélögum og segir VR hafa hugað að því að segja sig úr sambandinu. 

„Við teljum að Alþýðusambandið hafi ekki verið að rækja skyldur sínar gagnvart aðildarfélögum. Forsetinn hefur verið hálfgert eyland, eða á sínum forsendum, þegar hann á að vera sameinginatákn fyrir ólíkar skoðanir innan hreyfingarinnar,“ segir Ragnar og bætir við:

„Forsetinn á að sameina ólík sjónarmið innan hreyfingarinnar og á að vera sameiningartákn út á við. Þetta hefur Drífu augljóslega mistekist.“ 

Samskiptin lítil sem engin

Í samtali við mbl.is í dag sagði Drífa samskipti innan verkalýðshreyfingarinnar hafi verið erfið. 

Ragnar Þór áttar sig ekki á hvaða samskipti það séu sem Drífa talar um, þar sem þau hafi verið í lágmarki. 

„Við höfum reynt að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma með tillögur um að laga þessi samskipti. Þær tilraunir okkar og þær breytingar sem hafa verið gerðar, hafa ekki borið árangur,“ segir Ragnar og bætir við: 

„Ég vísa þessum erfiðu samskiptum sem að hún er að vísa til að mörgu leyti á bug, vegna þess að samskiptin hafa eiginlega verið lítil sem engin. Það hefur ekki verið haldinn forsetafundur síðan snemma á þessu ári og svo hefur okkur í VR gengið erfiðlega að fá stuðning við okkar áherslumál innan ASÍ.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert