Garðabær ekki verri en aðrir

Skiltið umrædda sem garðbæsk bæjaryfirvöld brugðu skjótt við og fjarlægðu …
Skiltið umrædda sem garðbæsk bæjaryfirvöld brugðu skjótt við og fjarlægðu í dag er það vakti viðsjár í málfarshópum lýðnetsins. Ljósmynd/Kristín Helga Gunnars

„Ég sá þetta á Facebook hjá konu sem birti mynd af þessu skilti þar sem enskur texti er með stórum stöfum og sambærilegur texti á íslensku fyrir neðan með mun smærra letri,“ segir Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslensku nútímamáli við Háskóla Íslands og löngu landskunnur málverndarfrömuður.

Til umræðu er skilti á vegum Garðabæjar sem sjá má á mynd með þessu viðtali og stóð við íþróttahús Garðbæinga, Miðgarð, þar til í dag, en Almar Guðmundsson bæjarstjóri brá að sögn Eiríks skjótt við, svaraði honum í Facebook-hópnum Málspjalli og kvað sveitarfélagið aðhafast tafarlaust. Að sögn talsmanna bæjarins var skiltið fjarlægt án tafar.

„Ég setti þetta inn í hópinn Málspjall sem ég stjórna og sagði þar að skiltið væri bæjaryfirvöldum í Garðabæ til skammar,“ heldur Eiríkur áfram, „undir það tóku margir og skömmu síðar var Almar Guðmundsson kominn þarna inn á þráðinn og sagði að auðvitað ætti íslenskan að vera í öndvegi og þessu yrði kippt í liðinn,“ segir prófessorinn enn fremur.

Hugsunarleysi er víða sést

Nefnir Eiríkur að í spjallþræðinum á Málspjalli hans hafi lesendur bent á að ámóta skilti væru nú sett upp víða. „Látum nú vera ef þetta skilti hefði verið einhvers staðar þar sem helst mætti búast við erlendum ferðamönnum en ég get ekki ímyndað mér að sú sé raunin þarna,“ segir Eiríkur og vísar í lög.

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus, hefur verið „hraðkvæðr hilmi at mæra“ …
Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus, hefur verið „hraðkvæðr hilmi at mæra“ þar sem íslensk tunga er, þar sem þó æva skyldi enda. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Samkvæmt lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls er íslenska opinbert mál á Íslandi og ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á því að hafa íslenskuna í hávegum svo mér þótti dálítið hart að þetta skilti væri þarna á vegum sveitarfélagsins,“ segir hann, „án þess að ég ætli mér að segja að Garðabær sé eitthvað verri en aðrir, þetta er líklega ekki einhver meðvituð ákvörðun að gera enskunni hærra undir höfði en íslenskunni, þetta er bara hugsunarleysi sem maður sér svo víða.“

Bendir Eiríkur á að auðvitað búi tugir þúsunda á Íslandi sem ekki skilji íslensku og því sé sjálfsagt að skilti séu á ensku jafnframt íslensku, „slíkt getur bara verið mikilvægt út frá öryggissjónarmiðum. En íslenskan á náttúrulega alltaf að vera á undan, alls staðar í kringum okkur eru skilti fyrst á máli viðkomandi lands og með stærra letri, meira að segja í Skotlandi og á Írlandi, þar sem kannski eru nú ekki mjög margir sem tala skosk-geilísku og írsku lengur, eru þau mál á undan enskunni,“ segir Eiríkur.

Þykir sjálfsagt að margt sé á ensku

Hann játar að svo megi vel vera að Íslendingar telji úlfalda hér gerðan úr mýflugu. „Þetta er þó andvaraleysi gagnvart íslenskunni, enskan er allt of sjálfsögð fyrir okkur, margir líta ekki á hana sem erlent tungumál lengur, fólki finnst sjálfsagt að margt sé á ensku,“ heldur hann áfram og rifjar upp heimsókn í Þjóðarbókhlöðuna fyrir mörgum árum.

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, og hans fólk tvínónuðu ekki við …
Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, og hans fólk tvínónuðu ekki við að fjarlægja skiltið enda prestar einir sagðir tvínóna er þeim verður á í messusöng. mbl.is/Arnþór

„Þar var skilti sem á stóð „Caution – wet floor“ og engin íslenska. Þarna er auðvitað bara verið að kaupa inn skilti sem kannski eru ekki til á íslensku en ætlum við að burðast við að vera sjálfstæð þjóð með sjálfstætt tungumál eða ekki, það kostar auðvitað eitthvað,“ segir Eiríkur og kveðst að lokum ánægður með viðbrögð Garðabæjar í skiltamálinu.

Hvað skyldi Garðabær þá segja til að bera hönd fyrir höfuð sér?

„Skiltin voru ekki sett upp af Garðabæ,“ segir Eysteinn Haraldsson, sviðsstjóri tækni- og umhverfissviðs Garðabæjar, í samtali við mbl.is, „Íslenskir aðalverktakar voru meðal annars með erlenda starfsmenn þegar þeir byggðu Miðgarð og þeir settu upp þessi skilti fyrir þá starfsmenn. Eftir að þeir skiluðu verkinu af sér urðu skiltin eftir. Búið er að taka skiltin niður,“ segir Eysteinn að lokum og mega Garðbæingar því vænta rammíslenskra bannskilta við Miðgarð.

Einföld skýring en þörf umræða engu að síður í raunveruleika sem býður íslenskri tungu að draga reip við sífellt rammari andstæðing.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert