Kortavelta ferðamanna aldrei meiri að nafnvirði

Heildargreiðslukortavelta í júlí nam rúmum 125,1 milljörðum og jókst um …
Heildargreiðslukortavelta í júlí nam rúmum 125,1 milljörðum og jókst um 15% á milli ára. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Kortavelta erlendra ferðamanna hér á landi nam tæpum 35,4 milljörðum í júlí og hefur hún ekki mælst meiri að nafnvirði frá upphafi mælinga árið 2012. Veltan jókst um 24,7% á milli mánaða. Þetta kemur fram í mánaðarlegri samantekt Rannsóknaseturs verslunarinnar.

Að raunvirði hefur veltan einungis mælst meiri í tveimur mánuðum frá upphafi mælinga, í júlí og ágúst árið 2018. Ferðamenn frá Bandaríkjunum voru ábyrgir fyrir 35,4% af allri erlendri kortaveltu hér á landi. Þjóðverjar komu næstir með 7,9% og svo Frakkar með 5,2%.

Heildargreiðslukortavelta í júlí nam rúmum 125,1 milljörðum og jókst um 15% á milli ára miðað við breytilegt verðlag. 

Heildarvelta erlendis ekki meiri frá upphafi mælinga

Heildarvelta innlendra greiðslukorta í verslunum og þjónustu erlendis nam rúmum 25,3 milljörðum í júní og hefur aftur ekki verið meiri frá upphafi mælinga árið 1997. Veltan jókst um tæpa 13 milljarða frá fyrra ári.

Í samantekt RSV segir að heildarkortavelta Íslendinga á Íslandi hafi numið tæpum 89,8 milljörðum í júlí og jókst um 4,52% á milli ára miðað við breytilegt verðlag.

Innlend kortavelta í verslun nam tæpum 48 milljörðum í júlí sem er 0,85% meira en á sama tíma í fyrra miðað við breytilegt verðlag. Innlend kortavelta í verslun á netinu nam tæpum 3 milljörðum í júlí og jókst hún um tæp 21,7% á milli ára miðað við breytilegt verðlag.

Innlend kortavelta í þjónustu nam rúmum 41,8 milljarði í júlí og jókst hún um rúm 9% á milli ára miðað við breytilegt verðlag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert