Ísland er komið á kortið

Golfvöllurinn í Brautarholti vekur æ meiri athygli úti í heimi.
Golfvöllurinn í Brautarholti vekur æ meiri athygli úti í heimi. Ljósmynd/Edwin Roald

Einn af ritstjórum Golf World dregur hvergi af sér í lýsingum á upplifuninni af íslenskum golfvöllum.

Í vikunni var birtur listi í breska tímaritinu Golf World yfir hundrað áhugaverðustu vellina í Evrópu utan Bretlands. Tímaritið býr til annan lista sem er eingöngu með völlum á Bretlandseyjum en vagga golfsins er jú í Skotlandi. Þau tíðindi urðu að þessu sinni að hvorki fleiri né færri en fimm íslenskir vellir náðu inn á listann. Raunar eru þeir allir á meðal fimmtíu efstu. Á ensku var úttektin kölluð Top 100 X Factor Courses for Continental Europe. Segja má að þar sé verið að leita eftir völlum sem er upplifun að heimsækja en ekki verið að horfa í hverjir séu bestu keppnisvellirnir eða þess háttar.

Brautarholtsvöllur á Kjalarnesi er í fjórða sæti á listanum, sem er eiginlega með nokkrum ólíkindum í ljósi þess mikla úrvals af völlum sem eru í boði. Er hann til að mynda ofar en Le Golf National í París þar sem keppt verður í golfi á næstu Ólympíuleikum. Þar var keppt um Ryder-bikarinn árið 2018. Næst verður keppt um Ryder-bikarinn á Marco Simone-vellinum í Róm en sá völlur er fyrir neðan bæði Brautarholt og Vestmannaeyjavöll á listanum hjá Golf World. Vestmannaeyjavöllur er í áttunda sæti. Hvaleyrarvöllur í Hafnarfirði er í 35. sæti, Víkurvöllur í Mýrdal í 42. sæti og Sigló á Siglufirði er í 50. sæti.

Hefur leikið um allan heim

Ísland virðist vera komið á kortið fyrir alvöru sem áfangastaður fyrir kylfinga. Tímaritið Golf World kemur nú út í netútgáfu í samstarfi við Today’s Golfer. Þegar Golf World hætti að gefa út á pappír árið 2014 voru 130 þúsund áskrifendur að tímaritinu. Golf World hefur einmitt verið þekktast fyrir Topp 100 listana sína yfir golfvelli um allan heim og borin hefur verið virðing fyrir vinnubrögðunum. Ritstjóri verkefnisins, Chris Bertram, lék víða á Íslandi þegar hann dvaldi á landinu og gæti svo sem hafa komið oftar til landsins.

Greinarhöfundur fer lofsamlegum orðum um Vestmannaeyjavöll enda er hann í …
Greinarhöfundur fer lofsamlegum orðum um Vestmannaeyjavöll enda er hann í 8. sæti á listanum. Ljósmynd/GSÍ

„Ég hef leikið golf í 57 löndum og svo gott sem í öllum heimshornum. Frá Níkaragva til Noregs eða frá Óman til Nýja-Sjálands. Aldrei hef ég snúið heim jafn kátur, áhugasamur og satt að segja undrandi vegna upplifunar minnar eins og eftir heimsóknina til Íslands,“ skrifar Bertram.

Hann er augljóslega hrifinn af Brautarholti og segir að holurnar tólf séu fullkomin stærð fyrir landsvæðið. Honum dettur einungis Lofoten í Noregi í hug sem golfvöllurinn þar sem fegurðin er meiri í hans augum. 

Greinina í heild sinni er að finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Þar er rætt við Þorgeir Guðnason formann golfklúbbsins í Vík í Mýrdal og Edwin Roald Rögnvaldsson sem hannaði tvo af völlunum fimm, í Brautarholti og á Siglufirði. 
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert