Klósettlokið á að vera uppi!

„Ég féll alveg fyrir prjónaskap og prjónaði 45 peysur á …
„Ég féll alveg fyrir prjónaskap og prjónaði 45 peysur á einu ári,“ segir Elisa Hanssen sem klæðist einmitt einni af sínum peysum á myndinni.

Elisa býr í Hörgársveit, nálægt höfuðstað Norðurlands, og vill hvergi annars staðar vera. Hún er frá Hollandi en hefur búið hér á landi í sex ár við leik og störf. Í dag vinnur hún bæði á leikskóla og í ferðaþjónustu, en ástríðan liggur í ljósmyndun, hestum og prjónaskap.

Við Elisa áttum stefnumót yfir netið í vikunni þar sem hún leiddi blaðamann í allan sannleikann um hvað lokkaði hana hingað, lífið á Íslandi og af hverju hún fór að prjóna og taka myndir. Við ræddum einnig menningarmun landanna, en Elisu finnst til að mynda afleitt að Íslendingar setji alltaf klósettlokið niður.

Kolféll fyrir landinu

„Í Hollandi var ég að vinna hjá ríkisútvarpinu og við spiluðum mikið íslenska tónlist, eins og Ásgeir Trausta sem ég elskaði að hlusta á. Af því við spiluðum hann svona mikið datt mér í hug að fara í frí til Íslands árið 2015. Ég kolféll fyrir landinu og hugsaði stanslaust um hvernig og hvenær ég gæti komið aftur. Ég hafði þá unnið í fimm, sex ár á útvarpinu og fannst kominn tími til að breyta til og gera eitthvað nýtt.

Vinnan var stressandi og mig langaði í eitthvað rólegra þannig að mér datt í hug að ég gæti verið leiðsögumaður í reiðtúrum. Ég elska að fara á hestbak og mér finnst gaman að vinna með túristum, þannig að mér fannst það gott plan og ég sótti um hér. Upphaflega ætlaði ég að vera í sex mánuði en er hér enn.“

Hestar eru góð módel

Elisa ólst upp við hestamennsku í Hollandi og hafði því góða reynslu. En annað áhugamál kviknaði þegar hún flutti til Íslands.

Elisa nýtur sín vel á Íslandi og elskar að fara …
Elisa nýtur sín vel á Íslandi og elskar að fara á hestbak. Hún vinnur við að fara í reiðtúra, meðal annars, en hún vinnur einnig á leikskóla. Ljósmynd/Nikki van den Broek

„Ég hafði aldrei snert myndavél áður en ég kom hingað. En hér var svo fallegt að ég var stöðugt að taka myndir á símann minn sem ég sendi á vini mína eða setti á instagramreikning minn @elisa_in_iceland.

Svo eftir ár á Íslandi datt mér í hug að kaupa mér alvörumyndavél. Ég byrjaði að mynda, aðallega hesta, sem eru góð módel, en einnig landslag. Ég fór að pósta ljósmyndunum á instagram og seinna opnaði ég vefsíðuna elisainiceland.com þar sem fólk getur keypt eftir mig myndir, en einnig læt ég prenta á lyklakippur og símahulstur. Þetta er meira til gamans gert; ég verð ekkert rík af þessu,“ segir hún og hlær.

„Ég er með sautján þúsund fylgjendur á instagram þannig að það eru þó nokkrir,“ segir Elisa.

Elisa veit fátt skemmtilegra en að mynda hesta.
Elisa veit fátt skemmtilegra en að mynda hesta. Ljósmynd/Elisa

Prjónaði 45 peysur á einu ári

„Ég lærði að prjóna á Íslandi, en amma mín kenndi mér að prjóna þegar ég var átta ára og ég prjónaði þá pínulitla prufu og aldrei neitt meira. Á Íslandi fór ég að prófa mig áfram og byrjaði á treflum og svo ákvað ég að prófa peysu. Ég féll alveg fyrir prjónaskap og ég prjónaði 45 peysur á einu ári,“ segir hún og skellihlær.

Hestar lenda oft á peysum Elisu en hún hannar sjálf …
Hestar lenda oft á peysum Elisu en hún hannar sjálf mynstrin.

„En þetta var líka á Covid-tímum og ég hafði lítið annað að gera. Ég prjónaði allan veturinn og seldi, en oftast prjónaði ég eftir pöntun. Ég var algjörlega háð prjónaskap og því gott að mér tókst að selja eitthvað,“ segir hún og segist smátt og smátt hafa farið að hanna sín eigin mynstur.

„Ég nota instagram til að selja mínar afurðir, en er líka farin að ráðleggja fólki í gegnum myndsímtöl hvað það eigi að gera á Íslandi. Þá getur fólk spurt mig beint og ég rukka þá fyrir tímann,“ segir hún og segist í raun vera leiðsögumaður í netheimum.

Hér er heimurinn á hvolfi í skemmtilegri landslagsmynd Elisu.
Hér er heimurinn á hvolfi í skemmtilegri landslagsmynd Elisu. Ljósmynd/Elisa

Mér finnst það mjög pirrandi!

Nú sérðu hlutina með gestsaugum og póstar stundum um þau mál. Segðu mér frá málinu með klósettlokin?

Elisa skellihlær.

„Ég hafði aldrei leitt hugann að þessu áður en ég kom hingað, en í Hollandi setur enginn klósettlokið niður en hér gera það allir. Mér finnst það mjög pirrandi!“ segir hún og hlær.

„Ég veit að fólk hér vill hafa klósettin lokuð. Heima í Hollandi er eitthvað að ef lokið er niðri. Þá veit maður að klósettið er stíflað og þar er eitthvað sem maður vill ekki sjá. Þannig að í mínum huga held ég það sama þegar ég sé lokuð klósett hér,“ segir hún.

„Það er mjög slæmt ef ég er á bar, aðeins í því, og fer á klósettið, því þá man ég ekki að lokið er niðri og sest á það. Það er ekki góð tilfinning!“ segir hún og hlær dátt.

Og þú byrjar að pissa eða?

„Nei, ég hef ekki lent í því sem betur fer en tvær erlendar vinkonur mínar hafa lent í því. Það var heldur ekki skemmtilegt!“

Ítarlegt viðtal er við Elisu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 




Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert