Unglingur réðst á lögreglu í verslunarmiðstöð

Lögreglan mætti á staðinn til að ræða við hópinn og …
Lögreglan mætti á staðinn til að ræða við hópinn og vísa út en fékk engin viðbrögð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögregla aðstoðaði í nótt ölvaðan mann sem lá á grasbala, og hafði verið tilkynnt um. Var hann aðstoðaður heim til sín. 

Þá var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna ungmenna sem voru til vandræða í verslunarmiðstöð. Hópurinn var sagður hafa átt í hótunum við öryggisverði. Lögregla kom á vettvang til að ræða við hópinn og vísa honum út. Fengust við það engin viðbrögð.

Þegar færa átti einn úr hópnum út, réðst hann á lögreglumann. Málið var svo afgreitt með aðkomu foreldra og barnaverndar. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. 

Telur sig vita hver átti í hlut

Einn ökumaður var stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. 

Tilkynnt var um þjófnað úr tveimur verslunum. Lögregla fór á vettvang og ræddi við hlutaðeigandi í annað skiptið, en varðandi seinna tilvikið var þjófurinn farinn þegar lögreglu bar að. Lögregla telur sig þó vita hver átti í hlut. 

Þá var aftur tilkynnt um þjófnað, en nú í símafyrirtæki. Tveir menn voru sagðir hafa stungið vörum í vasa. Þá skiluðu þeir einhverju en grunur leikur á að þeir hafi engu að síður komið hluta af þýfinu undan án þess að greiða fyrir. Lögregla bíður eftir upptökum úr myndavélakerfi.

Loks var haft afskipti af tveimur mönnum vegna gruns um þjófnað og hald lagt á verkfæri meðal annars. Einn maður var svo tekinn með fíkniefni en látinn laus að lokinni skýrslutöku.

Grunaður um að aka rafhlaupahjóli undir áhrifum

Rafmagnshlaupahjóli var ekið á bifreið en ökumaður hlaupahjólsins er grunaður um akstur undir áhrifum og því færður á lögreglustöð í sýnatöku. Var hann látinn laus að því loknu. 

Annað óhapp varð við akstur rafmagnshlaupahjóls, en kona fékk af slíku hjóli. Hún hefði þegar verið flutt á bráðamóttöku Landspítala með töluverða áverka. Ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um líðan hennar að svo stöddu. 

Maður var handtekinn og vistaður í fangageymslu eftir óspektir í miðbæ Reykjavíkur. Var hann látinn gista þar til morguns vegna ástands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert