„Alltaf nóg til af dópi“

Íslenskur fíkniefnasali segir nýlega haldlagningu lögreglu á stórri kókaínsendingu ekki …
Íslenskur fíkniefnasali segir nýlega haldlagningu lögreglu á stórri kókaínsendingu ekki endilega hafa svo mikið að segja fyrir markaðinn á Íslandi. Ljósmynd/Drugabuse.com

„Þetta hefur kannski áhrif í einhverjar vikur en það er alveg nóg sem kemur inn. Jú jú, nú voru hundrað kíló tekin en ég er ekki viss um að þetta valdi neinum skorti,“ segir íslenskur kókaínsali í samtali við mbl.is um eitt hundrað kílógrömm af efninu sem lögregla lagði haldi hald á og fjölmiðlar hafa greint frá í dag.

„Það er alltaf nóg til af dópi, tollurinn er kannski að ná fimm til tíu prósentum, er ekki alltaf talað um það? Ég held að það sé nokkuð nærri lagi. Það er verið að moka þessum efnum inn, fólk er að koma með þetta í rassgatinu á sér í flugi, það er verið að senda þetta í pósti og gámaskipin eru auðvitað góð flutningsleið, erfitt að leita í þeim, og ekki gleyma Norrænu, þar kemur hellingur inn,“ segir sölumaðurinn.

Tómt í einhverjar vikur kannski

Hann telur stórar sendingar sem teknar eru ekki hafa varanleg áhrif á markaðinn miðað við það magn sem verið er að flytja inn til Íslands. „Ef ég á að taka mark á þeim sem ég er að tala við skiptir þetta ekki stórmáli, verður kannski tómt [ekkert framboð] í einhverjar vikur eins og ég sagði. Þetta er bara eins og í covid þegar ferðatakmarkanirnar voru, þá hækkuðum við bara verðið en það var alltaf nóg til,“ heldur hann áfram.

Viðmælandi mbl.is segir fíkniefni rándýr á Íslandi, þangað sé eftirsóknarvert að koma efnum og pólskar og litáískar mafíur hafi augastað á landinu. „Nú er auðvitað farið að framleiða mikið af amfetamíni og kannabisefnum á Íslandi, vinsælustu efnunum, svo það hefur kannski ekki eins mikið að segja núna og í gamla daga ef eitthvað klikkar í smyglinu, þetta skiptir ekki eins miklu máli núna,“ segir viðmælandinn.

Bætir hann því við að margir stærri aðilar eigi bita í kökunni. „Þeir sem fjármagna þetta eru ekkert að koma nálægt smásölu, eða sjaldnast, auðvitað eru aðallega smærri aðilar að standa í götusölunni, smásalar og hlaupatíkurnar þeirra, þá ertu kominn alveg niður í botngróðurinn. Fólkið sem er að fjármagna þetta ætlast til þess að fá fjárfestinguna til baka, það lætur efnin ekki frá sér nema tryggt sé að það sé að græða á þessu. Fíkniefnasala veltir jafn miklu í heiminum og Coca Cola og McDonald‘s til samans.

„Svakalegir peningar“

Hundrað kílóa sending sem er tekin hefur nánast engin áhrif á markaðinn. Nú er fólk farið að reykja krakk hérna á Íslandi [kókaín sem blandað er við lyftiduft og hitað í örbylgjuofni] og „freebase“-a það. Ég hef alltaf sagt að við séum 20 til 30 árum á eftir Bandaríkjunum og þar var auðvitað krakkfaraldur á síðustu öld. Nú er það komið hingað,“ heldur viðmælandi mbl.is áfram.

„Það eru svakalegir peningar í þessu og auðvitað munu þessi efni streyma áfram til Íslands eins og annarra landa í Evrópu. Þetta er bara spurning um framboð og eftirspurn og fólk vill nota þessi efni, alveg eins og áfengi, við sjáum það alveg,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert