Alvarlegur vandi ef lausnir finnast ekki

Runólfur Pálsson, forstjóri Landpítala.
Runólfur Pálsson, forstjóri Landpítala. mbl.is/Arnþór

Ef ekki finnast lausnir á mönnunarvanda Landspítalans mun hann lenda í alvarlegum vanda á komandi árum. Þetta segir Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans.

Gert er ráð fyrir verulegri aukningu verkefna vegna vaxandi fjölda aldraðra í samfélaginu. Þessi hópur nýtir sér heilbrigðisþjónustu mikið, þar á meðal á Landspítalanum. Ef mannaflinn verður ekki nægur mun álagið aukast og meiri hætta verður á því að fólk hverfi frá störfum.

Hugsar til framtíðar

„Ef við finnum ekki einhverjar lausnir við að auka mannaflann þá munum við lenda í alvarlegum vanda í framtíðinni. Ekki á morgun eða hinn daginn eða í vetur. Þetta er tilfinnanlegt vandamál í dag en ég er að hugsa til framtíðar,“ segir Runólfur, spurður út í ummæli sín frá því í gær um yfirvofandi þrot á mannafla ef ekkert verður að gert.

Hann bætir við að ýmsar leiðir séu mögulegar en að þær muni ekki allar skila árangri strax. „Ef við ætlum að vera tilbúin eftir einhver ár þá verðum við að hefjast handa ekki seinna en núna.“

Beðið eftir niðurstöðum

Spurður um hversu mikinn mannafla þarf á spítalann þegar horft er til framtíðar segir Runólfur mannaflagreiningu og skilgreiningu mönnunarviðmiða vera í gangi á spítalanum og að betra sé að bíða eftir niðurstöðum þeirrar vinnu í stað þess að skjóta á einhverjar tölur. „Ég veit bara að það þarf umtalsverðan fjölda.“

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is

Undirbúningur hafinn í samstarfi við HÍ

Haldið hefur verið á lofti að Landspítali geti ekki tekið tekið við fleiri nemendum í læknisfræði við Háskóla Íslands en þeim var fyrir fáeinum árum fjölgað úr 48 í 60. Runólfur segir það rétt að spítalinn hafi átt í erfiðleikum með að tryggja klíníska hluta námsins með fullnægjandi gæðum með þeim fjölda starfsfólks og því fyrirkomulagi kennslu sem er til staðar í dag. 

Hann kveðst ekki vita til þess að ítarleg greining hafi fram á því hversu mörgum nemendum í læknisfræði Landspítalinn gæti tekið við með breytingum á fyrirkomulagi klínískra námskeiða og segir hann óhjákvæmilegt að framkvæma slíka greiningu. Undirbúningur þess efnis er þegar hafinn í samstarfi við forseta læknadeildar Háskóla Íslands.

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

Skipulag bráðamóttöku endurskoðað

Spurður út í viðbragðsteymi sem heilbrigðisráðherra stofnaði í byrjun sumars til að bregðast við neyðarástandi á bráðamóttöku Landspítalans segir Runólfur að það hafi verið stofnað í flýti þegar ljóst var að staðan í sumar yrði mjög erfið. Hann segir framhald verða á verkefninu á vegum ráðuneytisins í haust þar sem skipulag bráðaþjónustunnar á öllu landinu verður tekið til endurskoðunar.  „Það er ekki skyndiviðbragð eins og var í júní heldur markviss vinna sem á að leggja línurnar fyrir komandi ár,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert