Borgin kynnir sex tillögur að leikskólavandanum

Frá mótmælunum í Ráðhúsinu í dag.
Frá mótmælunum í Ráðhúsinu í dag. mbl.is/Hákon

Borgaryfirvöld hafa kynnt sex aðgerðir vegna leikskólavandans í borginni. Borgarráð samþykkti aðgerðirnar á fundi sínum í dag. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. 

Hér má sjá þær sex tillögur sem borgarráð hefur samþykkt: 

1.    Opnun Ævintýraborgar á Nauthólsvegi verði flýtt til fyrri hluta september

Ævintýraborg við Nauthólsveg verður opnuð í fyrri hluta september. Lögð verður áhersla á fjölbreytta útiveru barna í Öskjuhlíðinni, Nauthólsvík og næsta nágrenni meðan unnið verður að frágangi útileiksvæðis við skólann sem stefnt er á að verði tilbúið fyrri hluta október næstkomandi. Leikskólinn getur tekið á móti 100 börnum. 

2.    Laust húsnæði borgarinnar verði nýtt til að taka við nýjum börnum í haust 

Laust húsnæði í eigu borgarinnar verður nýtt til að taka á móti fleiri börnum í leikskóla á þessu hausti. Hafin er könnun á því hvort hægt er að nýta Korpuskóla undir leikskólastarf, sem tímabundinn valkost fyrir börn sem ekki hafa leikskólapláss í dag. Sömuleiðis er lagt til að opnaðar verði tvær deildir til viðbótar í leikskólanum Bakka í Staðarhverfi. Stefnt er að því að fjölga plássum um 160-200 með þessum ráðstöfunum. Þá er lagt til að skoðað verði hvort hægt er að nýta húsnæði frístundaheimila og annað húsnæði á vegum borgarinnar og samstarfsaðila tímabundið undir leikskólastarf. Þessi úrræði eru með fyrirvara um áhuga foreldra á að þiggja pláss sem standa til boða og fyrirvara um mönnun.

3.    Nýr leikskóli í Fossvogi

Samþykkt var að Reykjavíkurborg nýti forkaupsrétt sinn með kaupum á lóð sem staðsett er í Fossvogsdalnum, við hlið Ræktunarstöðvar Reykjavíkur. Óskað verður eftir skipulagsbreytingum fyrir lóðina og ef hún verður samþykkt þá verði sett upp Ævintýraborg fyrir 100 börn á lóðinni. Stefnt að því að nýr leikskóli í Fossvogi sem tekið geti á móti a.m.k. 100 börnum verði tilbúinn til notkunar á næsta ári.

4.    Stækkun Steinahlíðar

Leikskólinn Steinahlíð er einn af elstu leikskólum borgarinnar og rúmar 55 börn í dag. Samþykkt var að Reykjavíkurborg tæki upp viðræður við Barnavinafélagið Sumargjöf sem á húsnæði og lóð leikskólans um að leikskólinn verði stækkaður, tímabundið og/eða varanlega. Vilji beggja aðila til könnunar á stækkun leikskólans var ávarpaður í samkomulagi um hugsanlegar breytingar á lóðamörkum Steinahlíðar vegna Borgarlínu sem kynnt var og samþykkt í borgarráði 18. júní sl.

5.    Hækkun niðurgreiðslu til dagforeldra

Samþykkt var að hækka niðurgreiðslu vegna þjónustu dagforeldra til þess að fjölga dagforeldrum, styrkja starfsgrundvöll þeirra og lækka útgjöld foreldra sem nýta sér þjónustu dagforeldra. Stofnstyrkir verði hækkaðir og fleiri leiðir til úrbóta kannaðar, s.s. húsnæðisstuðningur og fræðslustyrkir.

6.    Verklag leikskólainnritunar

Samþykkt var að verklag leikskólainnritunar verði endurskoðað með tilliti til bættrar upplýsingagjafar til foreldra, einföldunar umsóknarferils og meira gagnsæis. Skoða þarf möguleika á auknu samstarfi í innritun í leikskóla Reykjavíkurborgar og sjálfstætt starfandi leikskóla í borginni.

Jafnframt samþykkti borgarráð að taka til meðferðar tillögur fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í skóla- og frístundaráði. 

Hér má sjá yfirlit yfir ný leikskólapláss í Reykjavík á árinu 2022 samkvæmt Brúum bilið áætlun:

  • Stækkun við leikskólann Gullborg og leikskólann Funaborg (47)
  • Ævintýraborg á Eggertsgötu – var opnuð í mars (85)
  • Bríetartún – var opnað í apríl  (60)
  • Brákarborg á Kleppsvegi – verður opnuð á mánudag  (120)
  • Nauthólsvegur – verður opnaður í september (100)
  • Múlaborg –  verður opnuð í október (60)
  • Hagaborg – verður opnuð í nóvember (30)
  • Vogabyggð – verður opnuð í desember (100)
  • Samtals: 553 pláss
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert