Stærri gos gætu orðið í öðrum eldstöðvum

Dregið hefur verulega úr virkni gossins síðustu daga.
Dregið hefur verulega úr virkni gossins síðustu daga. mbl.is/Ágúst Óliver

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur telur að eldgosinu við Meradali sé að ljúka. Virknin sé enn einhver en hún minni frekar á gutlandi leirhver en eldgos.

Hann telur að tveir möguleikar séu í stöðunni; annað hvort sé gosinu lokið eða kvika haldi áfram að flæða beint í hraunpollinn í dalnum.

„Þá er kvika ekki að fara upp í gegnum gíginn. Hún fer þá beint út í hraunpollinn og þá hættum við að sjá virknina. Þá er hún bara undir skorpunni. En ég held í raun og veru að það sé mjög líklegt að gosinu sé að ljúka, frekar en að það haldi áfram með einhverri neðanjarðarstarfsemi,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands.
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Búast megi við tíðum gosum

Þorvaldur segir að ef litið sé til sögunnar þá megi búast við tíðum gosum í og við Fagradalsfjall á næstu árum.

Spurður hvort stærð gosanna fari stigmagnandi segir hann að því sé erfitt að svara. Kvikan hafi komið af miklu dýpi, sem geti þýtt tíðari en minni gos.

„Aftur á móti situr kvika grynnra í geymsluhólfum í skorpunni eins og getur gerst við Svartsengi eða í Krýsuvík. Þá gætum við fengið færri elda en stærri gos. En það á eftir að koma í ljós hvernig þetta á eftir að þróast.“

Vísar Þorvaldur þar til tveggja annarra eldstöðvakerfa á Reykjanesskaga, en þau hafa af vísindamönnum verið talin vera sex talsins.

Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga (bleik). Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar …
Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga (bleik). Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar flekaskilin (rauð). Jarðhitasvæði eru einnig sýnd (gul). Sprungusveimar Hengils til norðausturs og Reykjaness til suðvesturs eru svartir. Kort/ÍSOR

Vitnisburður fyrri gostímabila

Munum við sjá sömu fyrirboða fyrir næsta gos?

„Þann lærdóm getum við dregið af þessum atburðum undanfarinna ára. Hér á árum áður var þetta ekki skráð svona vel eins og við gerum núna. Sérstaklega á 12.-13. öld, þá var talað lítið um skjálfta. Við erum í raun og veru að læra heilan helling um hvernig svona atburðir ganga fyrir sig,“ segir Þorvaldur.

„En við höfum ákveðna þekkingu og vitnisburð frá fyrri gostímabilum. Við höfum verið að reyna nýta okkur þá þekkingu til þess að spá fyrir um hvernig framtíðin er en ég held að við megum alveg búast við því að skjálftahrinur verði tíðar. Kannski mun tíðari en eldgosin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert