Talinn hafa ráðið niðurlögum árásarmannsins

Lögregla að störfum við vettvang á Blönduósi í dag.
Lögregla að störfum við vettvang á Blönduósi í dag. mbl.is/Hákon

Svo virðist sem skotárásarmanninum á Blönduósi hafi verið ráðinn bani af syni hjónanna, sem fyrir skotárásinni urðu í bítið á sunnudagsmorgun. Atburðarásin er um margt flókin og óljós, en þó er að komast á hana nokkur mynd.

Lögreglan hefur varist allra frétta, enda málið fjölþætt, málsatvik snúin og rannsókn stendur enn yfir. Eitt og annað hefur þó komið í ljós og af þeim brotum má draga ályktanir um atburðarásina í stórum dráttum.

Íbúar Blönduóss eru harmi slegnir eftir atburði morgunsins og fjölmenntu …
Íbúar Blönduóss eru harmi slegnir eftir atburði morgunsins og fjölmenntu á upplýsingafund lögreglu klukkan 20 í kvöld. mbl.is/Hákon

Hafði í hótunum með haglabyssu

Eftir því sem næst verður komist átti málið sér nokkurn aðdraganda. Hjón á sextugsaldri á Blönduósi, sem fyrir árásinni urðu, höfðu haft árásarmanninn í vinnu hjá fyrirtæki þar í bænum, sem þau veittu forstöðu, en honum var sagt þar upp fyrir nokkru.

Hann mun ekki hafa fellt sig við það og sóst eftir að fá starfið aftur, en verið sagt að búið væri að ráða annan í hans stað.

Fyrir nokkrum vikum kom árásarmaðurinn heim til þeirra og hafði í hótunum með haglabyssu. Hann átti allnokkur skotvopn, var skotveiðimaður, áhugamaður um skotfimi og með þjálfararéttindi á því sviði. Hann var handtekinn vegna þessara hótana og vopnalagabrota og vistaður á geðdeild, en lögregla lagði hald á öll skotvopn, sem hann var skráður fyrir.

Heimildir mbl.is herma að til hafi staðið að svipta hann byssuleyfi á morgun.

Lögregla hefur sagt að árásarmanninum hafi ekki verið ráðinn bani …
Lögregla hefur sagt að árásarmanninum hafi ekki verið ráðinn bani með skotvopni. mbl.is/Hákon

Lífshættulega særður

Árásarmaðurinn, sem var 35 ára gamall, fékk lausn eða leyfi af geðdeild um helgina, samkvæmt heimildum mbl.is sem þó eru óstaðfestar.

Virðist hann hafa orðið sér úti um haglabyssu með einhverjum hætti og kom í morgunsárið á sunnudag að heimili hjónanna. Atburðarásin þar er ekki fyllilega ljós, en svo virðist sem hann hafi skotið og banað eiginkonunni og síðan skotið eiginmanninn, sem er lífshættulega særður.

Fullorðinn sonur þeirra hjóna var ásamt konu sinni og ungu barni í húsinu, en hann er talinn hafa komið fram við skothvellina, gengið til atlögu við árásarmanninn og ráðið honum bana í átökunum.

Fánar hafa víða verið dregnir í hálfa stöng í bænum, …
Fánar hafa víða verið dregnir í hálfa stöng í bænum, þar á meðal við Blönduóskirkju. mbl.is/Hákon

Eftir sitja spurningar

Ekkert hefur komið fram um með hvaða hætti það gerðist, nema hvað lögregla hefur sagt að það hafi ekki verið gert með skotvopni. Eftir því sem næst verður komist voru sonurinn og kona hans látin laus eftir yfirheyrslur seint í dag.

Eftir sitja spurningar um hvers vegna árásarmanninum var hleypt út af geðdeild, þrátt fyrir að eiga við geðrænan vanda að etja, en eins beinist rannsókn lögreglu m.a. að því hvar og hvernig hann gat orðið sér úti um skotvopn.

Fréttin hefur verið uppfærð svo fram komi að sonurinn og kona hans hafi verið látin laus í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert