Datt ekki í hug að landlæknir færi í borgara

Stofnendur Köru connect, þau Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Hilmar Geir …
Stofnendur Köru connect, þau Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Hilmar Geir Eiðsson. Ljósmynd/Aðsend

„Fyrstu viðbrögðin mín eru að spyrja af hverju eru þau að þessu, hvers vegna vilja þau ekki bjóða út þessa hluti? Hvað er verið að verja svona mikið? Þeir tala um einhver hundruð milljóna, það eru milljarðar að fara í þessi kerfi hjá þeim. Þetta eru tugir milljarða undanfarin ár,“ segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri Kara Connect ehf, innt viðbragða við stefnu embættis landlæknis.

Embættið hefur stefnt félaginu og fleiri aðilum fyrir dóm vegna úrskurðar kærunefndar útboðsmála í máli fyrirtækisins gegn embættinu, heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Origo hf. og Sensa ehf. sem var birtur í febrúar síðastliðnum.

Í úrskurðinum var lögð 9 milljóna króna stjórnvaldssekt á embætti landlæknis. Fram kom að það hefði ekki farið að lögum um útboð við þróun á hugbúnaðarkerfunum Heilsuveru og Heklu, auk þróunar á fjarfundarbúnaði til notkunar á heilbrigðissviði. Þá þurfti embættið einnig að greiða tvær milljónir króna í málskostnað til Köru Connect, sem kærði kaup embættisins til kærunefndarinnar.

Bara verið að tefja málið meira 

Þorbjörg segir þetta ekki hvetjandi skilaboð frá ríkinu til startup-fyrirtækja. Vinnubrögðin bendi ekki til þess að vinna eigi með fyrirtækjunum, heldur þvert á móti.

„Við vorum í tvö ár að reyna draga fram upplýsingar um samninga og það er búið að kosta okkur tíma og fjármuni. Þau áttu að greiða málskostnað og sekt og nú er bara verið að tefja þetta enn meir. Stefnan er skýr, þau vilja fá úrskurðinum hnekkt, þau vilja ekki þurfa að bjóða út.

Lögmenn embættisins telja að í úrskurðinum séu meiri annmarkar en embættið geti unað. Ágreinings- og úrlausnarefnin séu afar flókin og að ógerlegt sé að útfæra úrskurðarorð kærunefndar. Auk þess sem þau kalli á kostnað sem gæti hlaupið á hundruðum milljónum króna.

Embættinu sé því nauðugur sá kostur að stefna Köru Connect ehf. og fleiri aðilum þar sem ekki sé heimilt að stefna kærunefndinni, en harmar að þess sé þörf.

Markmiðið að var að fá útboð

„Það stendur hvergi í þessari tilkynningu hvers vegna þeir harma þetta svona mikið. Hvers vegna hættu þeir ekki bara við og fóru að laga til í þessu. Markmiðið okkar var alltaf að fá fram útboð. Að þau færu eftir lögum. Það er algjörlega galið að segja að það sé bara óheppilegt að við séum þarna fyrir. Þau eru að reyna hnekkja úrskurðinum sem við settum í kærunefndina. Þau vilja ekki bjóða út og telja sig ekki þurfa þess.“ segir Þorbjörg.

„Landlæknisembættið hefur ekki boðið neitt út í þrjátíu ár og hefur bara aldrei boðið neitt út en er mjög stórtækur á markaðnum. Hvað er það sem að tefur þau svona svakalega, af hverju fara þau ekki bara að bjóða út? Það eru lög í landinu, þetta eru skattpeningar. Það eru mörg fyrirtæki sem hafa lent í því að komast ekki að.“

Þorbjörg segir það ekki hafa hvarflað að henni að embætti landlæknis myndi stefna félaginu. Þá hafi stefnan ekki borist fyrr en eftir að tilkynning var birt um málið á heimasíðu embættisins.

„Mér datt ekki í hug að þetta embætti myndi fara í borgara. Ég vaknaði á sunnudaginn við sms frá lögmanni félagsins sem sagði að það kæmi stefna í dag. Það kom okkur algjörlega í opna skjöldu. Við héldum að embættið væru að vinna í sínum málum, og hefja útboð, en ekki kaupa lögfræðitíma til að stefna litlu fyrirtæki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert