Vegirnir bera ekki umferðina

Þetta er mikil keyrsla og dauðar stundir eru tæpast til, …
Þetta er mikil keyrsla og dauðar stundir eru tæpast til, segir Stefán Borgar, hér stopp í Varmahlíð. mbl.is/Sigurður Bogi

Á ferð milli Reykjavíkur og Norðurlands – sama í hvora áttina er farið – er daglega á ferðinni stór floti flutningabíla. Bílstjórarnir á trukkum í tugatali fara úr heimahöfn síðla dags sem aðrir ökumenn mæta þá kannski í Borgarfirði eða norður í Húnavatnssýslum á miðju kvöldi. Arnsúgur fylgir þessum stóru bílum og eins gott er að halda vel um stýrið þegar þeir þeysa fram hjá. Raunar gildir þetta á öllum þjóðvegum landsins.

Þrír dráttarklárar

Samskip, Eimskip og Vörumiðlun eru með flesta stóru flutningabílana á þjóðvegunum, en minni fyrirtæki eru einnig í þessari starfsemi. Eitt þeirra er Feðgar á ferð. Að því standa Magnús Stefánsson og Stefán Borgar sonur hans. Þeir eru Seyðfirðingar en nú búsettir suður með sjó og gera út þrjá Man-bíla: dráttarklára með tengivagni. Feðgarnir eru báðir í keyrslunni við þriðja mann; Atla Þór Höskuldsson. Vanir menn á vegum og í stoppi í Varmahlíð í Skagafirði á dögunum tók blaðamaður Stefán Borgar tali.

„Víða eru þjóðvegir landsins alltof mjóir og bera ekki þá miklu umferð sem um þá fer. Viðhald á vegunum dugar bara rétt til að halda í horfinu enda þótt marga vegi þurfi að styrkja og byggja upp. Þjónustu Vegagerðar á veturna mætti sömuleiðis halda úti fram í nóttina, því við á stóru bílunum erum gjarnan á ferðinni þá, svo sem í flutningum á fiski,“ segir Stefán Borgar og heldur áfram:

„Við feðgar erum raunar mest í flutningum á fiski og núna vorum við Atli að koma frá Siglufirði með fisk sem fer til vinnslu í Kópavogi og að einhverju leyti vestur á Þingeyri. Þetta er mikil keyrsla og dauðar stundir eru tæpast til.“

Malbikið er varanlegt

Stefán Borgar var í nokkur ár til sjós en kom inn í flutningastarfsemina með föður sínum árið 2017. Þeir fara víða og vegalengdirnar eru miklar. Vestur á Ísafjörð úr bænum og til baka aftur, leið sem oft þarf að fara, eru 900 kílómetrar. Sé svo farið austur á Neskaupstað til dæmis í fiskflutninga er vegalengdin samanlagt um 1.400 km.

„Vegirnir hér austur með suðurströndinni eru orðnir mjög brotnir og varhugaverðir. Alveg frá Freysnesi og austur á firði er ástandið slæmt og einbreiðu brýrnar geta verið hættulegar,“ segir Stefán Borgar. „Sömuleiðis tel ég að úrelt sé að hafa aðeins slitlag á þjóðvegunum, þar þarf varanlegri lausn, sem er malbik. Slitlagið brotnar fljótt og blæðingar úr því geta verið mjög slæmar. Í mildu tíðarfari í desember 2020 rifnuðu stórir kögglar úr vegunum og olíuborin möl festist á bílunum. Tjónið sem þetta olli á bílunum hljóp í sumum tilvikum á hundruðum þúsunda króna. Þetta er nokkuð sem gæti endurtekið sig skapist sömu aðstæður aftur, sem er mjög sennilegt að gerist einhvern tíma.“ Með mildari veðráttu verða vegir sjaldnar en áður beinlínis ófærir vegna snjóa og hríðarveðurs. Þegar slíkt gerist haga menn akstri í samræmi við aðstæður og fara hægt yfir, ella þá bíða ósköpin af sér. „Mér finnst alvarlegt að hálkuvarnir á vegunum séu ekki í lagi. Þegar maður ekur Ísafjarðardjúpið, þar sem á veturna er stundum milt veður og hiti kannski við frostmark, myndast gjarnan glæra með hálku sem ekki er auðvelt að sjá fyrir. Að vörnum í því sambandi þarf að standa betur,“ segir Stefán Borgar. Hann telur sömuleiðis að huga þurfi betur að aðbúnaði flutningabílstjóra. Þeim ber að haga akstri sínum samkvæmt reglum um hvíldartíma; það er mega aka í fjóra og hálfan tíma tvisvar á dag en á milli þurfa þeir að taka sér 45 mínútna pásu.

Sund í skyldupásum

„Víða, svo sem við hraðbrautir í Evrópu, hafa verið útbúin stæði og afdrep þar sem bílstjórar á flutningabílum geta tyllt sér niður í skyldupásum. Þannig þyrfti að útbúa hér á landi. Annars hef ég gjarnan sætt lagi og tekið stoppið í sundlaugum. Þar hafa laugarnar á Patreksfirði, Bolungarvík, Eskifirði og Djúpavogi komið sterkar inn; enda frábært að láta þreytuna líða úr skrokknum í heitu vatni,“ segir Stefán Borgar að síðustu.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. ágúst. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert