Kókaínið var falið í timbursendingu

Efnin sem fundust í timbrinu.
Efnin sem fundust í timbrinu. Ljósmynd/Hollenska lögreglan

Rannsókn lögreglu á innflutningi á miklu magni af fíkniefnum miðar vel, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, og er þar vísað til tæplega 100 kílógramma af kókaíni sem falin voru í gámi með timbursendingu á leið frá Brasilíu með viðkomu í Hollandi.

Kemur enn fremur fram í tilkynningunni að íslensk og hollensk löggæsluyfirvöld hafi átt í náinni samvinnu vegna málsins en kókaínið uppgötvaðist í Hollandi er leit var framkvæmd í timbursendingunni.

Gerviefnum komið fyrir

„Grundvöllur leitarinnar ytra voru upplýsingar frá íslenskum löggæsluyfirvöldum, byggðar á frumkvæðisrannsóknum á skipulagðri brotastarfsemi, um grun þess efnis að mikið magn kókaíns væri að finna í gámnum. Eftir að fíkniefnin fundust og voru haldlögð var gerviefnum komið fyrir í gámnum,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

Einn maður hafi svo verið handtekinn eftir að hann sótti gerviefnin eftir að gámurinn kom til Íslands og þrír aðrir í kjölfarið. Voru fjórmenningarnir úrskurðaðir í gæsluvarðhald nú í byrjun mánaðar og það framlengt til 14. september yfir þremur þeirra. Sá fjórði hóf hins vegar afplánun vegna annarra mála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert