„Þetta var eftir á að hyggja súrrealískt“

Brynja Huld segir auðvelt að gagnrýna stjórnvöld fyrir aðgerðaleysi en …
Brynja Huld segir auðvelt að gagnrýna stjórnvöld fyrir aðgerðaleysi en erfitt sé að vita hvað geti virkað. Ljósmynd/Aðsend

Brynja Huld Óskarsdóttir, öryggis- og varnarmálasérfræðingur, segir sorglegt að fylgjast með því hvernig Afganistan hefur í raun horfið af yfirborðinu eftir að talíbanar náðu þar völdum í ágúst á síðasta ári, þegar erlent herlið yfirgaf landið.

Ástandið innanlands sé skelfilegt en engin lausn í sjónmáli. Stór sprenging varð í mosku í Kabúl síðustu viku, þar sem yfir 20 manns létu lífið. Ekki einungis sé öryggisástandið ótryggt, heldur sé landið eitt af þeim sem verður hvað verst úti vegna loftslagshamfara með gífurlegum þurrkum og hamfaraflóðum.  

„Ég man ennþá þegar Afganistan datt úr „headlines“ á The Guardian í september. Ég óttaðist að nú yrði þetta gleymda krísan og hún er það því miður,“ segir Brynja sem starfaði á vegum NATO í Afganistan frá árinu 2018 til 2019.

Fólk lagði á sig miklar þrekraunir til að komast úr …
Fólk lagði á sig miklar þrekraunir til að komast úr landi. AFP/Bertrand Guay

Erfitt að vita hvað myndi virka

„Það er auðvitað auðvelt að sitja og gagnrýna vestræn stjórnvöld fyrir að vera ekki tilbúin með meiri viðbrögð eða áætlanir en það er erfitt að vita hvaða stefna myndi virka, og sérfræðingar og yfirvöld ekki sammála um hvernig eigi að koma Afgönum til hjálpar. Á að veita peningum inn í land sem er í höndum talíbana? Hvernig á að styðja við konur og stelpur og hvernig á að koma í veg fyrir þá svakalegu hungursneyð sem ríkir í Afganistan? Hvernig getur alþjóðasamfélagið best axlað ábyrgð á okkar þætti í þessari atburðarrás og því hvernig komið er fyrir landinu?“

Brynja segir engin augljós svör við þessum spurningum sem geri stöðuna enn erfiðari.

 „Við [Vesturlönd] yfirgáfum landið og það er ólíklegt að nokkur fari inn aftur. Ég sé ekki hvaða vestræni stjórnandi myndi senda herina sína inn í Afganistan eða stofna til diplómatískra samskipta eins og landinu er stýrt núna núna.“

„Það voru allir skíthræddir við í hvað stefndi“

Fjöldi Afgana, sem Brynja kynntist þegar hún starfaði fyrir NATO, var í sambandi við hana mánuðina áður en Kabúl, höfuðborg Afganistan, féll í hendur talíbana. Fólk var í örvæntingu sinni að leita allra leiða til að komast úr landi. „Það voru allir skíthræddir við í hvað stefndi,“ segir Brynja.

Allir Afganar sem hafi haft einhver tengsl við vestræna aðila, sérstaklega þau sem höfðu verið að vinna fyrir alþjóðastofnanir, hafi um sumarið reynt að hafa samband við sína tengiliði og óskað eftir því að fá skrifuð meðmæli eða hjálp við að fylla út hinar ýmsu umsóknir til að komast úr landi.

„Það voru allir að reyna að komast úr landi áður en alþjóðlegt herlið yfirgæfi landið. Örvæntingin magnaðist upp allt sumarið. Ég get því ímyndað mér að það sé sárt fyrir Afgani þegar vestræn stjórnvöld segja að enginn hafi getað vitað að talíbanar tækju landið yfir. Ég var að fá hjálparbeiðnir í maí og júní frá fólki sem vildi komast úr landi. Í júlí fór fólk svo virkilega að gera sér grein fyrir því hversu hratt talíbanar voru að ná landinu á sitt vald og óttuðust hvað myndi gerast þegar alþjóðlegt herlið myndi yfirgefa landið í lok ágúst. Það er augljóst að talíbanar voru bara að bíða og 15. ágúst óðu þeir inn í Kabúl.“

Kabúl féll í hendur talíbana í ágúst á síðasta ári.
Kabúl féll í hendur talíbana í ágúst á síðasta ári. AFP/Wakil Kohsar

Nýttu allar tengingar til að koma kollegum úr landi 

Þegar Kabúl féll urðu til litlar sellur af fólki um allan heim sem einhvern tíma hafði unnið í Afganistan eða þekkti vel til.

„Það voru búnir til listar og gögnum safnað saman um Afgani sem voru fastir í Afganistan og vildu komast úr landi, til að reyna að koma þeim í flóttaflug. Þetta var algjört kaos. Þjóðirnar og alþjóðastofnanir sem höfðu viðveru í landinu höfðu lítið sem ekkert undirbúið brottför sína úr landinu, svo þurfti bara að drífa sig út.“

Brynja vísar til viðtals sem birtist í Þýskalandi rétt fyrir verslunarmannahelgi sem sýnir til dæmis fram á að þýsk yfirvöld hafi í raun ekki horfst í augu við það sem var að gerast í landinu.

Hún vísar einnig í skýrslur breska og bandaríska þingsins sem sýna að Vesturlönd hafi brugðist Afganistan.

„Þessar tvær vikur voru þær verstu í lífi afganskra kollega og líka erfiðar vikur fyrir þau sem voru ekki á staðnum,“ segir Brynja um dagana áður en Kabúl féll.

„Þetta var eftir á að hyggja súrrealískt. Ég var í London, vinur minn var í Belfast og ein samstarfskona í Amsterdam og hermennirnir sem ég var í samskiptum við voru bæði Kabúl og í Bandaríkjunum. Öll sem komu nálægt skipulagi flóttafluga nýttu allar hernaðarlegar, diplómatískar og vinatengingar til að koma kollegum okkar úr landi. Stundum gekk vel, stundum ekki.“

Stjórn talíbana hefur skert réttindi kvenna gríðarlega, lokað skólum og …
Stjórn talíbana hefur skert réttindi kvenna gríðarlega, lokað skólum og bannað þeim að mennta sig. AFP/Wakil Kohsar

Föst í flóttamannabúðum næstu árin

Fólkið sjálft hafi svo oftar en ekki þurft að ganga í gegnum miklar þrekraunir til að komast úr landi.

„Fólk svaf í viku fyrir utan flugvöllinn þar sem voru ítrekaðar sjálfsmorðssprengingar, fólk svaf í strætó og á jörðinni. Þurfti að rífast við talíbana allan sólarhringinn til að vera ekki rekið í burtu.“

Allt var þetta skipulagt í gegnum samskiptaforritið WhatsApp. „Þetta var svona „WhatsApp evacuation“. Það var það sem kom fólki úr landi. WhatsApp og hvaða símanúmer hafðir þú og hvernig gastu reddað öðrum símanúmerum og tengingum við rétta aðila. Varnarmálaráðherra Bretlands hefur réttilega lýst flóttaflugsaðgerðunum sem „Dunkirk via Whatsapp“,“ útskýrir Brynja Huld.

Öll þau sem Brynja Huld vann með eða var í samskiptum við þegar hún starfaði í Afganistan, komumst úr landi, en sum þeirra eru enn í flóttamannabúðum, til dæmis í Pakistan.

„Það tekur ekkert endilega betra við. Herlögreglan ofsækir fólk og vill senda það til baka því nágrannalönd Afganistan tóku við mjög mörgu fólki á flótta. Það getur verið allt að þriggja til fimm ára bið eftir því að fá málið sitt tekið fyrir hjá flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna. Vissulega býr fólk ekki lengur undir ofríki talíbana en það er mjög niðurdrepandi tilhugsun fyrir þau að vera í flóttamannabúðum í Pakistan í mörg ár.“

Stúlkur hafa þurft að stunda nám í leyni síðan talíbanar …
Stúlkur hafa þurft að stunda nám í leyni síðan talíbanar náðu völdum. AFP/Daniel Leal

Á eftir að síast inn hve stór atburðurinn var 

Brynja Huld segir erfitt að vita til þess að ári eftir fall Afganistan sé fólk sem hún vann með í Kabúl enn í þessari stöðu og geta ekkert gert til að hjálpa.

„Hjálparleysið er algjört. Ég held að öll sem hafa tengingu við Afganistan séu boðin og búin að hjálpa, skrifa meðmæli, senda tölvupósta, fylla út pappíra – en það getur tekið átján mánuði fyrir þessa pappíra að ná efst í bunkann hjá útlendingastofnunum hinna og þessara landa,“ segir Brynja og getur ímyndað sér að þúsundir einstaklinga um allan heim upplifi mikið vonleysi yfir því að geta ekki hjálpað vinum og kollegum í sömu aðstæðum.

Aðspurð um eftirmálana telur Brynja Huld að fólk geri sér kannski almennt ekki grein fyrir því hve stór atburður fall Afganistan hafi verið í alþjóðlegu samhengi. Krísan þar hafi verið fljót að falla í gleymskunnar dá og auðvelt sé að líta undan.

„Ég held að þegar við munum líta í baksýnisspegilinn eftir fimm til tíu ár þá munum við horfa á fall Afganistan, það hvernig stríðinu í Afganistan leiddi til lykta, sem hálfgert hrun þessarar tegundar vestrænnar utanríkisstefnu, og jafnvel sjá að þetta hafi verið sambærilegt falli Berlínarmúrsins. Straumhvörf svokölluð. Við erum bara ekki búin að fatta það. Það á eftir að síast inn hvað þetta var stór alþjóðlegur atburður þó hann hafi gerst svona langt í burtu frá okkur,“ segir Brynja.

Áhrifin eigi einnig eftir að koma í ljós, hvort atburðurinn marki upphafið að breytingum í alþjóðasamskiptum og þróun alþjóðamála. „Það er eitthvað sem tíminn mun leiða í ljós.“

AFP/Lillian Suwanrumpha
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert