Útfærslur á flýti- og umferðargjöldum til skoðunar

Bílaumferð á höfuðborgarsvæðinu.
Bílaumferð á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Félagið Betri samgöngur ohf. hefur hafið skoðun á mögulegum útfærslum flýti- og umferðargjalda í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytið og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

EFLA hefur veitt ráðgjöf hvað þetta varðar en verkfræðistofan hefur komið að flýti- og umferðargjöldum í Noregi, að því er kemur fram í nýlegri skýrslu Betri samgangna. Ekkert kemur fram um hvenær stendur til að leggja þessi gjöld á hérlendis en á sínum tíma var áætlað að það yrði gert á þessu ári.

Jafnframt hefur verið fundað með SWECO og International Transport Forum hjá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD). Unnið er að frekari greiningum á mögulegum áhrifum flýti- og umferðargjalda á samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

Fram kemur í skýrslunni að endurskoðun standi yfir á tekjustofnun ríkisins vegna ökutækja og eldsneytis með tilliti til orkuskipta.

„Hluti þeirrar vinnu verður að breyta gjaldtöku með þeim hætti að í ríkari mæli verði treyst á gjöld af umferð í stað bensín- og olíugjalda. Í Samgöngusáttmálanum er gert ráð fyrir að fyrirtækið geti innheimt svonefnd flýti- og umferðargjöld sem yrðu liður í breyttri gjaldtöku ríkisins. Áætlað er að það skili fyrirtækinu 60 milljörðum á tímabilinu,“ segir í skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert