Næstum heil fjölskylda í áhöfn Icelandair

Hjónin Ingvar Mar og Sigríður Nanna ásamt dætrum sínum á …
Hjónin Ingvar Mar og Sigríður Nanna ásamt dætrum sínum á leið í flug til Washington DC. Ásamt þeim var ein önnur flugfreyja og einn flugmaður í áhöfninni. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta var ekkert öðruvísi en hvert annað flug. Það sinntu allir sínu starfi og allt gekk fagmannlega. Það var ekkert mikið fjölskyldulegt við flugið sjálft.“

Þetta segir Ingvar Mar Jónsson, flugmaður hjá Icelandair sem flaug nýlega til Washington DC í Bandaríkjunum, ásamt konu sinni og dætrum, í samtali við mbl.is. 

Með Ingvari í áhöfninni var konan hans, Sigríður Nanna Jónsdóttir, og dætur þeirra, Nína Björg Ottósdóttir, Ingibjörg Ingvarsdóttir og Sigríður Marta Ingvarsdóttir. Starfa þær allar sem flugfreyjur.

Ásamt fjölskyldunni var einn annar flugmaður og flugfreyja í áhöfninni. 

Ingvar segir flugið með hafa gengið fagmannlega.
Ingvar segir flugið með hafa gengið fagmannlega. Ljósmynd/Aðsend

Yndislegt að vera með fjölskyldunni

Að sögn Ingvars báðu þau öll um að vera sett í þetta tiltekna flug til Washington. Hvorki Ingibjörg né Sigríður Marta fengu þó flugið en náðu að skipta á vöktum við flugfreyjur sem áttu að vera í því.

Eftir að ljóst varð að þau myndu öll fljúga saman bauð fjölskyldan móður Sigríðar Nönnu og mökum Ingibjargar og Sigríðar Mörtu með í flugferðina.

„Við stoppuðum í sólarhring í Washington og þá var auðvitað yndislegt að vera með fjölskyldunni en í vinnunni sjálfri var þetta eins og hvert annað flug,“ segir Ingvar.

Fjölskyldan saman fyrir framan Hvíta húsið í Washington DC.
Fjölskyldan saman fyrir framan Hvíta húsið í Washington DC. Ljósmynd/Aðsend

Kynntust hjá Icelandair

Ingvar og Sigríður Nanna kynntust í gegnum störf sín hjá Icelandair en Ingvar hóf störf árið 1996 og Sigríður Nanna ári síðar. 

Sigríður Nanna kemur úr mikilli flugfjölskyldu en faðir hennar, Jón Karl Snorrason, og afi, Snorri Snorrason, störfuðu báðir sem flugstjórar hjá Icelandair. Afabróðir Sigríðar Nönnu var Jóhannes Snorrason sem starfaði sem yfirflugstjóri hjá Icelandair í áratugi.

Nú starfar bróðir hennar, Snorri Bjarnvin Jónsson, sem flugstjóri hjá Icelandair og kona hans, Erla Kristinsdóttir, sem flugfreyja. Þá er systir Sigríðar Nönnu, Þórhildur Jónsdóttir, einnig flugfreyja.

Hjónin Ingvar og Sigríður Nanna kynntust í gegnum störf sín …
Hjónin Ingvar og Sigríður Nanna kynntust í gegnum störf sín hjá Icelandair. Ljósmynd/Aðsend

Áhuginn kviknaði snemma

Að sögn Ingvars kviknaði flugfreyjudraumurinn hjá dætrum þeirra Sigríðar Nönnu þegar þær voru ungar.

„Þær vildu allar að minnsta kosti prófa þetta. Þeim fannst svo spennandi þegar við komum heim frá Bandaríkjunum með eitthvað dót en svo komu þær líka oft út með okkur sem krakkar. Þannig kviknaði áhuginn.“

Nína Björg hóf störf hjá Icelandair árið 2015 og sinnir starfinu meðfram snyrtifræðinámi. Ingibjörg og Sigríður Marta réðu sig í sumarstarf hjá flugfélaginu nú í sumar. 

Ingvar segir að Sigríður Marta, sem leggur stund á uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands, hafi áhuga á að koma aftur í flugfreyjustarfið að náminu loknu en þykir honum líklegt að Ingibjörg, sem stundar laganám við Háskólann í Reykjavík, láti staðar numið við flugfreyjustarfið eftir sumarið.

Þau hjón eiga einnig sautján ára son. Að sögn Ingvars er hann enn óákveðinn með hvað hann gerir í framtíðinni. Hann sé þó ekki jafn áhugasamur um fluggeirann og systur hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert