Viðbragðsáætlun ætti að liggja fyrir í FSu

Sólborg Guðbrandsdóttir.
Sólborg Guðbrandsdóttir. Ljósmynd/UNWomen

„Kynferðisbrotamál koma upp í grunn- og framhaldsskólum á Íslandi. Þessir skólar eru ekki með viðbragðsáætlanir. Eftir standa þolendur, sem verða fleiri með hverju ári þegar ekkert breytist,“ segir Sólborg Guðbrandsdóttir, tónlistarkona og höfundur bókarinnar Fávitar.

Nýlega kom upp kynferðisbrot innan veggja Fjölbrautaskólans á Suðurlandi, en viðbrögð skólastjórnenda hafa vakið talsverða athygli á samfélagsmiðlum.

Sólborg bendir á að ef farið hefði verið eftir tillögum í skýrslu sem afhent var  menntamálaráðuneytinu fyrir ári síðan, hefði átt að liggja fyrir viðbragðsáætlun fyrir skólastjórnendur. 

Lögðu til að gerðar yrðu viðbragðsáætlanir

Sólborg var hluti af starfshóp sem skipaður var af Lilju Alfreðsdóttur, þegar Lilja gegndi embætti menntamálaráðherra. Hópnum var falið það verkefni að útbúa skýrslu sem innihéldi tillögur að bættri kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum. 

„Starfshópurinn var skipaður í kjölfar umræðu á samfélagsmiðum þar sem fólk krafði ráðherra svara um skort á kynfræðslu í skólakerfinu,“ segir Sólborg. 

Í skýrslunni var meðal annars lagt til að kynfræðsla yrði gerð að skyldufagi í grunn- og framhaldsskólum. Hún skyldi hefjast við upphaf grunnskólagöngu, vera miðuð við aldur og þroska nemenda hverju sinni og að framboð kynfræðsluefnis yrði aukið. 

Þá var lagt til að gerðar yrðu viðbragðsáætlanir vegna kynferðisofbeldismála í öllum skólum landsins, að skólahjúkrunarfræðingar tækju til starfa í framhaldsskólum og að fagfólk sem sinnti kynfræðslu byðist starfsþróunarnámskeið til að bæta við þekkingu sína.

Óttuðust að skýrslan færi ofan í skúffu

„Við afhendingu skýrslunnar, sumarið 2021, var okkur tilkynnt af þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, augliti til auglitis, að vinnan við úrbætur myndi strax hefjast. Hópurinn hafði orð á því að hann hefði áhyggjur af því að skýrslan myndi enda ofan í skúffu en orðrétt sagði ráðherra að „þetta væri ekki svoleiðis skýrsla.“ Staðreynd málsins er hins vegar sú, nú rúmu ári seinna, að lítið hefur breyst.“

Í skýrslunni segir: „Lagt er til að Mennta- og menningarmálaráðuneytið geri miðlæga viðbragðsáætlun sem skólar geta tekið upp beint eða lagað að sínum starfsháttum. Mikilvægt er að rödd nemenda heyrist í þeirri vinnu og þeirra sjónarmið komi fram varðandi útfærslu slíkrar áætlunar.“

Þá var settur fram tímarammi, þar sem ráðuneytið var hvatt til þess að ljúka við gerð slíkrar viðbragðsáætlunar fyrir hasutið 2021 og að allir skólar hefði innleitt áætlunina í skólastarfið sitt fyrir haustið 2022. 

„Ef ráðuneytið hefði fylgt þessu eftir, þá hefði viðbragðsáætlun verið til í FSu núna. Það er nóg af fagfólki í samfélaginu okkar, bæði innan ráðuneytanna og utan þeirra, sem gæti auðveldlega útbúið svona áætlun. Ég get því ekki skilið þetta öðruvísi en svo að forgangsröðun ráðherra sé að standa í vegi fyrir þessu.“

Leyfa nemendum að tala í stað þess að þagga málið niður

Hvernig hefðu æskileg viðbrögð verið í svona máli?

„Til að byrja með þá ber íslenskum stjórnvöldum að tryggja kynfræðslu í skólakerfinu. Það er grunnurinn, að reyna með öllum mögulegum leiðum, að fyrirbyggja það að ungt fólk sé trekk í trekk að brjóta hvert á öðru. Hvort sem það er kynferðislega eða með öðrum hætti, bæði innan og utan skólanna.“

Þegar svona mál komi upp, þurfi að vera áætlun til staðar sem unnið sé eftir. Þannig geti starfsfólk skólanna brugðist við málunum með viðeigandi ráðstöfunum og stutt þannig við þolendur.

„Í stað þess að reyna að þagga niður „viðkvæmt mál“ hefði verið æskilegt að leyfa nemendum að tala og hlusta á það sem þau eru að biðja um til að tryggja öryggi þeirra og leita allra leiða til að fyrirbyggja það að fleiri mál komi upp í framhaldinu.“


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert