Hjálmar alls engin „töfralausn“

Töluverð aukning hefur orðið á rafskútuslysum í sumar, að mati …
Töluverð aukning hefur orðið á rafskútuslysum í sumar, að mati Árna Friðleifssonar, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Óskar

Læknir á bráðamóttöku segir hjálma alls enga „töfralausn“ þegar kemur að öryggismálum rafskútunotenda. Þó hann mæli að sjálfsögðu með hjálmanotkun segir hann heilaáverka mun sjaldgæfari en áverkar á andliti og útlimum.

Segir læknirinn auk þess mikilvægt að hafa í huga, þegar rætt er um fjölda rafskútuslysa, þá aukningu sem orðið hefur á notendum þeirra enda sé þetta orðinn vinsæll ferðamáti á höfuðborgarsvæðinu.

Segir aukningu á slysum

Töluverð aukning hefur orðið á rafskútuslysum í sumar, að mati Árna Friðleifssonar, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir slysin gerast oft að kvöldi til og á nóttunni, og að oft megi rekja þau til ölvunarástands þeirra sem stýra farartækjunum. 

Samkvæmt tölfræði Samgöngustofu barst stofnuninni tilkynningar um 35 slys á rafmagnshlaupahjólum árið 2020, þar af fjögur sem voru talin alvarleg. Ári seinna var fjöldi slysa kominn upp í 131, þar af 35 sem voru alvarleg. 

Frá janúar og fram í maí á þessu ári hafa slys á rafmagnshlaupahjólum verið skráð, þar af sex alvarleg.

Mikilvægt að hafa samræmið í huga

Hjalti Már Björnsson, læknir á bráðamóttöku Landspítala, segir spítalann ekki halda nákvæma skráningu um umfang slysana. Aftur á móti sé það mat hans að slysunum hafi ekki fækkað.

„Við finnum áfram fyrir því að það er nokkuð um slys þar sem fólk hefur verið að nota rafskútur og það er áberandi að talsverður hluti verður þegar að fólk er að fara á þessu farartæki undir áhrifum áfengis,“ segir Hjalti Már í samtali við mbl.is.

„En þó má segja að notendum hafi heldur fjölgað og þetta er orðinn vinsæll samgöngumáti á höfuðborgarsvæðinu og því verður að hafa í huga það samræmi sem er á milli fjölda notenda og slysafjöldans.“

Heilaáverkar fremur sjaldgæfir

Þá segir hann einnig vert að hafa í huga að hjálmar séu  „alls engin töfralausn á öryggismálum rafskútunotenda.“

„Það hefur verið nokkuð rætt um hjálmanotkun og að sjálfsögðu mæli ég með því að fólk noti hjálma við að fara á rafskútur en það sýni sig að langflestir af þeim sem slasast á rafskútum eru með andlitsáverka eða útlimaáverka og heilaáverkar eru fremur sjaldgæfir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert