Okkur er alls ekki sama

Bráðamóttaka Landspítalans.
Bráðamóttaka Landspítalans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hjúkrun á bráðamóttöku Landspítalans er vængbrotin og fólk sem kemur þangað til að fá bót meina sinna fær ekki alltaf meðferðina sem það á skilið vegna mönnunarvanda hjúkrunarfræðinga.

Þetta segir Mette Pedersen, hjúkrunarfræðingur á bráðamóttökunni, í facebookfærslu.

Stutt er síðan 14 hjúkrunarfræðingar á bráðamóttökunni létu af störfum og sagði forstjóri Landspítalans það áhyggjuefni og að snúa þyrfti þessari þróun við. 

Mette bendir á að þegar fólk kemur á deildina meti vaktstjóri hjúkrunar eða mjög reyndur hjúkrunarfræðingur alvarleika áverkanna eða veikindanna.

„Alþjóðlegt flokkunarkerfi er notað til að meta bráðleika og mjög mikilvægt er að viðkomandi hjúkrunarfræðingur er faglegur og mjög reyndur því einungis þannig er hægt að forgangsraða rétt. Það snýst nefnilega ekki um hver er að hrópa hæst og mest, hver þekkir einhvern í „háum stöðum” eða hvort viðkomandi vinnur á spítalanum. Það er oft ekki öfundsvert að vera sá sem þarf að forgangsraða veikt og slasað fólk,“ skrifar hún.

Bráðamóttaka Landspítalans.
Bráðamóttaka Landspítalans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bætir hún við að þegar mönnun hjúkrunarfræðinga sé af skornum skammti verði forgangsröðun enn mikilvægari og biðtíminn lengist fyrir fólk með áverka og veikindi sem getur beðið án þess að það hljóti skaða af.

„Það getur virkað eins og okkur er alveg sama - svo er alls ekki, en þetta er því miður staðan í dag  Því þegar hjúkrunarmönnunin er löskuð, þýðir það að ákveðnar tegundir af td verkjum, minniháttar beinbrot, blóðnasir og sýkingar þurfa að bíða lengur en þykir “eðlilegt” - og ekkert af okkur starfsfólkinu líður vel með það!“ skrifar hún jafnframt en tekur fram að lífshættuleg veikindi og áverkar hljóti alltaf forgang.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert