„Veit ekki hvað Íslendingum finnst almennt“

„Del“ stjórnar loftrýmisgæslu danska flughersins og kemur ekki fram opinberlega …
„Del“ stjórnar loftrýmisgæslu danska flughersins og kemur ekki fram opinberlega undir öðru en talstöðvarkallmerki sínu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er mjög svipað því starfi sem við vinnum í Danmörku, við erum hér við loftrýmisgæslu og eigum að geta brugðist skjótt við komi til þess,“ segir yfirmaður danskrar orrustuflugsveitar sem farið hefur með loftrýmisgæslu á Íslandi frá ágústbyrjun en heldur nú heim á leið á mánudaginn.

Alls telur danska loftrýmisgæslusveitin 60 manns og heldur hún úti fjórum F-16-orrustuþotum en þetta er í fimmta skiptið sem Danir annast loftrýmisgæslu Íslands en næstir í röðinni eru Norðmenn.

Yfirmaðurinn, sem gegnir kallmerkinu Del en gefur ekki upp raunverulegt nafn sitt svo sem alsiða er á þessum vettvangi, segir helsta muninn á verkefninu á Íslandi og hefðbundnum veruleika Dananna heima við vera þann að nú séu þeir staddir úti í miðju Atlantshafi. „Í Keflavík og á Akureyri eru í raun einu flugvellirnir þar sem við getum lent þotunum svo við þurfum að fylgjast mjög gaumgæfilega með veðrinu,“ segir Del og bætir því við að leiki minnsti vafi á flugveðri umhverfis téða flugvelli þurfi þeir að hafa þeim mun brýnni ástæðu til að hefja þotur sínar á loft.

Lítill tími til að skoða landið

„Við notum tímann í æfingaflug ef ekkert sérstakt er aðkallandi og Uedem [þar sem stjórnstöð NATO er í Þýskalandi] þarf ekki á okkur að halda, við fljúgum alla daga frá mánudegi til laugardags en sunnudaga fljúgum við ekki,“ útskýrir Del af daglegu lífi við loftrýmiseftirlitið.

F-16-stálfuglinn hvílir vígalegur í hreiðri sínu á Keflavíkurflugvelli.
F-16-stálfuglinn hvílir vígalegur í hreiðri sínu á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðspurður segir hann sveitina ekki hafa mikinn tíma aflögu til að líta í kringum sig á landinu. „Við höfum auðvitað skroppið eitthvað en við höfum þá reglu að fara aldrei lengra en í ákveðna fjarlægð frá flugstöðinni svo það er í raun mjög takmarkað sem við getum gert hér,“ segir yfirmaðurinn.

Sjálfur hefur hann flogið þotum sveitarinnar yfir landið, hvort tveggja núna og í heimsókninni 2018 segir hann og lætur vel af. „Landið er gríðarlega fagurt og svo stórt,“ segir Del og kannski ekki allir útlendingar sem létu þau orð falla en til samanburðar er Danmörk aðeins tæpir 43.000 ferkílómetrar að flatarmáli, innan við helmingurinn af Íslandi.

Hávaðakvörtun í ágúst

Del er spurður út í kvartanir af Norðurlandi í ágúst þegar íbúum þar þótti þotugnýrinn helst til mikill. Hvað heldur hann um viðhorf Íslendinga í garð loftrýmisgæslunnar og gestanna sem henni fylgja? „Ég veit nú ekki hvað Íslendingum finnst almennt um að hafa okkur hérna en ég veit að Landhelgisgæslan er mjög ánægð, þar starfar frábært fólk sem við höfum átt í mjög góðum samskiptum við,“ svarar Del.

Lítið er ýkt þegar sagt er að danska flugsveitin sé …
Lítið er ýkt þegar sagt er að danska flugsveitin sé grá fyrir járnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann kveðst hafa heyrt af hávaðakvörtuninni. „Við vorum á heimleið fyrir um það bil tveimur vikum og flugum yfir dal nokkurn og það var þá sem ég held að einhver hafi kvartað yfir okkur,“ segir hann, „ég heyrði það svo síðar að dalur þessi sé annálaður fyrir náttúrufegurð og þarna séu vinsælar laxveiðiár sem mjög dýrt sé að veiða í,“ heldur hann áfram og kveður hávaða alltaf fylgja F-16-þotunum. „Við höfum hvort tveggja hæðarmörk og hraðamörk en það heyrist alltaf vel í okkur,“ segir hann.

Utanríkisráðuneytið hafi spurt flugsveitina út í atvikið og Danirnir þá farið yfir öll gögn þar sem flugritar skrái allt sem gerist í hverju flugi. „Og við vorum þarna innan allra þeirra reglubundnu marka sem okkur er ætlað að halda okkur innan,“ segir Del af flugferðinni hávaðasömu og er því næst spurður út í stöðu Íslands í öryggis- og varnarmálasamhengi.

„Staðsetning Íslands er auðvitað mjög mikilvæg, þið eruð hér miðja vegu milli Evrópu og Bandaríkjanna sem hefur mikið að segja og ég vil líka benda á mikilvægi þess að hér sé sýnileg loftrýmisgæsla þótt hún sé ekki starfrækt öllum stundum og að við getum tryggt að öll öryggiskerfi NATO séu virk hér. Nú erum við að fara heim á mánudaginn eftir fimm vikur hér og það er mikilvægt að við og aðrir gæsluaðilar eigi hér viðdvöl,“ segir Del.

Lokaspurning fjallar um eldfimt ástandið í Evrópu um þessar mundir. Hverju spáir hann um framhaldið? „No comment!“ svarar Daninn hraðmæltur og bætir því við að hann hafi ekki hugmynd, hans getgátur séu ekki sterkari en þær sem blaðamaður kunni að hafa. „Hvort þessu lýkur núna eða eftir tíu ár, það veit enginn,“ segir danski gesturinn að skilnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert