Vilja borgaralega sérfræðinga í farsímarannsóknir

Páley Borgþórsdóttir er lögreglustjóri á Norðurlandi eystra.
Páley Borgþórsdóttir er lögreglustjóri á Norðurlandi eystra. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Lögreglan á Norðurlandi eystra óskar eftir rannsóknarlögreglumönnum og borgaralegum sérfræðingum til að rannsaka stafræn gögn, með áherslu á farsímarannsóknir. Um nokkrar stöður virðist vera að ræða, en auglýsingin birtist í Lögbirtingarblaðinu.

Meðal verkefna sérfræðinganna eru rannsóknir sem krefjast aukinnar sérhæfingar og sérþekkingar. Til að mynda afritun og rannsóknir farsíma og annarra starfrænna sönnunargagna og samskipti við erlenda samskiptamiðla og löggæsluyfirvalda með tilliti til réttarbeiðna.

Hvað varðar hæfniskröfur þá skulu lögreglumenn hafa lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins eða diplómaprófi í lögreglufræðum sem jafngildir 120 stöðluðum námseiningum, þ.m.t. starfsnámi á vegum lögreglunnar. Menntunarkröfur fyrir borgaralegan sérfræðing er menntun sem nýtist í starfi.

Þurfa að geta unnið utan hefðbundins vinnutíma

Gerð er krafa um að lögreglumenn hafi góða þekkingu á lögreglukerfinu (LÖKE). Aukin menntun og önnur reynsla sem nýtist í starfi er talin kostur en skilyrði er að umsækjendur séu tilbúnir að sækja sér viðbótarmenntun sem tengist rannsóknum og greiningu á stafrænum sönnunargögnum.

Þá er mikilvægt er að umsækjendur hafi almenna þekkingu og áhuga á tölvum, farsímum og öðru er því tengist. Þekking á Android og iOS stýrikerfum er kostur sem og þekking á SQLite.

Framúrskarandi færni í mannlegum samskiptum, sveigjanleiki, nákvæm og traust vinnubrögð eru mikilvægir eiginleikar. Einnig er mikilvægt að umsækjandi sé lausnarmiðaður og geti hvort sem er unnið sjálfstætt eða í hópi þegar það á við. Jafnframt er tekið fram að viðkomandi þurfi að gera unnið utan hefðbundins vinnutíma þegar þess gerist þörf.

Umsóknarfrestur er til og með 26. september, en gert er ráð fyrir að lögreglustjóri setji í stöðurnar frá og með 1. október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert