Google vill funda með Vegagerðinni

Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar telur að Google hafi áhgua á að bæta …
Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar telur að Google hafi áhgua á að bæta vegvísi sinn fyrir Ísland með nákvæmari upplýsingum. AFP

Fulltrúar Google höfðu samband við Vegagerðina í kjölfar umfjöllunar mbl.is, og óskuðu eftir fundi. 

„Þeir sendu bara póst það sem þeir lýstu yfir áhuga á því að tala við okkur og ég svaraði um hæl að ég væri tilbúinn til þess. Það er þó ekki kominn fundartími ennþá, en það var mjög ánægjulegt að heyra frá þeim,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar. 

Nákvæmari upplýsingar

Fulltrúarnir sem um ræðir starfa í kortadeild Google, að sögn G. Péturs, og telur hann að þeir vilji stofna til samstarfs við Vegagerðina og fá þannig betri upplýsingar um vegakerfið hér á landi. 

G. Pétur bendir á að hingað til hafi gætt ákveðinnar ónákvæmni í vegvísum Google leitarvélarinnar, sem geti valdið vandræðum. Vegir séu látnir beygja upp á fjöll og stoppa á tilviljanakenndum stöðum samkvæmt kortinu.

Í viðtali við mbl.is í síðustu viku, sem varð kveikjan að þessum samskiptum, kom G. Pétur inn á þennan vankant. Hann sagði Vegagerðina hafa átt í vand­ræðum með að tryggja að Google séu með rétt vega­kerfi, en fyrirtækið vilji almennt gera hlutina upp á sitt einsdæmi. 

Nú kann að verða breyting þar á. „Það er ljóst að Google eru duglegir að „gúggla“ Google.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert