Aldrei fleiri tilkynningar um heimilisofbeldi

Í 78,6% tilvika heimilisofbeldis var árásaraðili karl og 68,1% tilvika …
Í 78,6% tilvika heimilisofbeldis var árásaraðili karl og 68,1% tilvika var brotaþoli kona. Þegar horft er til tilvika heimilisofbeldis þegar um er að ræða ofbeldi milli maka eða fyrrum maka er 80,1% árásaraðila karlar og 77,1% brotaþola eru konur. Ljósmynd/Colourbox

Fjöldi tilvika tilkynninga til lögreglunnar um heimilisofbeldi og ágreining milli skyldra/tengdra aðila og á fyrstu sex mánuðum ársins 2022 hefur aldrei verið meiri, ef litið er til sama tímabils síðustu sjö ára á undan. 

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu ríkislögreglustjóra. Þar er að finna helstu tölur er snúa að heimilisofbeldismálum og ágreiningsmálum milli skyldra eða tengdra einstaklinga sem koma á borð lögreglu.

Lögreglan á landsvísu fékk 1232 tilkynningar um heimilisofbeldi og ágreining milli skyldra/tengdra aðila.  Jafngildir það 7 slíkum tilkynningum á dag eða 205 tilkynningum á mánuði. Um er að ræða tæplega 13% aukningu samanborið við síðustu þrjú ár þar á undan. 

Þegar eingöngu er litið til heimilisofbeldismála, þ.e. tilvika þar sem grunur er um brot á borð við líkamsárásir, hótanir eða eignaspjöll, þá eru tilvikin 592 eða 3% fleiri en á sama tíma 2021 og tæplega 2% fleiri en árið 2020 í miðjum heimsfaraldri.  Tilkynningum um ágreining milli skyldra/tengdra aðila voru 640 talsins, og hafa þær ekki verið fleiri, að því er lögreglan greinir frá í tilkynningu. 

Heimilisofbeldismál eru nú orðin meira en helmingur líkamsmeiðinga og manndrápsmála sem koma á borð lögreglunnar. (Árið 2020 voru manndráp/líkamsmeiðingamál 1776, heimilisofbeldismál voru 1050, eða 59% málanna)

Fækka á brotum og fjölga tilkynningum

Þolendakönnun lögreglunnar á undanförnum árum hafa sýnt að um 7% svarenda hafa orðið fyrir heimilisofbeldi, og um 7- 20% tilkynnt til lögreglunnar.  Stjórnvalda hafa því sett skýr markmið um að samhliða þess að fækka brotum sé stefnt að því að 35% þolenda tilkynni það til lögreglunnar árið 2027.

Í þeim tilgangi hefur lögreglan sett sér skýrt verklag um meðferð og skráningu heimilisofbeldismála og sinnt útköllum í samvinnu við félagsþjónustu og barnavernd sveitarfélaganna.   Þá hefur ofbeldisgáttin 112.is frætt um birtingarmyndir heimilisofbeldis, þau úrræði sem eru til staðar og staðið fyrir vitundarvakningu um mikilvægi þess að tilkynna til 112 hjá Neyðarlínunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert