Ódýrt bragð að snúa umræðu frá aðalatriðum máls

„Gögn málsins benda til að ekki hafi verið farið eftir …
„Gögn málsins benda til að ekki hafi verið farið eftir kjarasamningum og að starfsfólk eigi inni vangoldin laun hjá fyrirtækjunum sem nema milljónum,“ segir í yfirlýsingunni. Ljósmynd/Colourbox

Stjórn Fagfélaganna segir það ódýrt bragð að snúa umræðu frá aðalatriðum máls þegar kemur að réttindum launafólks, til að mynda þegar fólk á inni vangoldin laun. Aðalmálið sé að fólk fái greitt fyrir sína vinnu.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu félagsins og er þar vísað til máls sem kom inn á borð til Fagfélaganna í lok ágúst og varðaði stórfelldan launaþjófnað sem eigendur veitingastaðanna Bambus og Flame urðu uppvísir að. 

Benóný Harðarson, framkvæmdastjóri kjarasviðs Fagfélaganna, sagði í samtali við mbl.is í byrjun september að launakröfur þriggja fyrrverandi starfsmanna veitingastaðanna hljóðuðu samtals upp á rúmar þrettán milljónir króna. Sagði hann starfsfólk hafa unnið í allt að sextán tíma á dag á lágmarkslaunum, sex daga í viku og hvorki hafi verið greitt vaktaálag, yfirvinna né orlof.

Lögmaður eigendanna sagði hins vegar í samtali við mbl.is að starfsfólkið hefði aldrei unnið svo langa vinnudaga. Yfirleitt hafi verið unnir átta eða níu tímar á dag og einstaka sinnum tíu tímar, en á móti hafi komið fimm til sjö tíma vinnudagar. Það hafi þó verið rétt að vinnuvikan hafi verið sex dagar. Þá sagði lögmaðurinn fólkið hafa búið án endurgjalds í húsnæði eigendanna og stundum fengið fyrirframgreiðslur sem ekki hefðu verið skráðar.

Samkvæmt yfirlýsingunni hafa eigendurnir þegar viðurkennt brot sín en þá og Fagfélögin greinir á um upphæð kröfunnar.

Veitingastaðurinn Bambus er staðsettur í Borgartúni.
Veitingastaðurinn Bambus er staðsettur í Borgartúni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Farið hefur verið yfir aðstæður á vinnustaðnum

„Gögn málsins benda til þess að ekki hafi verið farið eftir kjarasamningum og að starfsfólk eigi inni vangoldin laun hjá fyrirtækjunum sem nema milljónum króna. Sem dæmi var ekki greitt fyrir langan vinnutíma, vaktaálag, yfirvinnu, orlof og/eða vetrarfrí. Launakrafa MATVÍS á hendur fyrirtækjunum byggist eingöngu á þeim vinnutíma sem hægt er að sanna, samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, að hafi verið unninn,“ segir í yfirlýsingunni. 

Samkvæmt gögnum, sem mbl.is hefur undir höndum, var allt að 700 þúsund króna mismunur á þeim mánaðarlaunum sem fólkið fékk útborgað og útreikningum Fagfélaganna sem miðast við lágmarkslaun og sem fólkið hefði átt að fá greidd.

„Það er ódýrt bragð að snúa umræðunni frá aðalatriðum málsins sem eru að starfsfólk á inni vangoldin laun. Það hefur farið yfir aðstæður á vinnustöðunum og lýst löngum vinnutíma. Aðalmálið er að félagsfólk MATVÍS, sem þarna átti í hlut, fái greitt fyrir sína vinnu enda er ljóst að um umtalsverðar upphæðir er að ræða. Launagreiðendurnir hafa viðurkennt brot sín en þá og Fagfélögin greinir á um upphæð kröfunnar,“ segir jafnframt í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert