Ragnar íhugar framboð til forseta ASÍ

Ragnar Þór kannar nú stuðning við mögulegt framboð til forseta …
Ragnar Þór kannar nú stuðning við mögulegt framboð til forseta ASÍ. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, kannar nú hvort hann hafi stuðning í embætti forseta Alþýðusambands Íslands. Ef breiður vilji er innan aðildarfélaganna fyrir breytingum, þá er hann tilbúinn að leiða það verkefni fái hann stuðning til þess, að fram kemur í Kjarnanum.

Í samtali við Kjarnann segir Ragnar að sá vilji verði að ná út fyrir þau félög sem hafa staðið þétt saman; Verkalýðsfélag Grindavíkur, Akraness, Eflingu, LÍV og fleiri. Hann mun taka ákvörðun um það á fimmtudaginn hvort hann fer í framboð eða ekki, en sú ákvörðun veltur á þeim viðbrögðum sem hann fær.

Sagði kúltúrinn innan ASÍ eitraðan

Drífa Snædal sagði af sér embætti forseta ASÍ í ágúst. Sagði hún samskipti sín við ýmsa kjörna fulltrúa innan sambandsins og blokkamyndun innan félagsins gera henni ókleift að starfa áfram sem forseti. Átökin innan ASÍ hefðu verið óbærileg.

Enginn hefur tilkynnt um framboð til forseta ASÍ og er Ragnar sá eini sem lýst hefur yfir áhuga á því að taka það að sér. Hann hefur verið mjög gagnrýninn á forystu ASÍ, þar á meðal Drífu. Eftir afsögn hennar í ágúst sagði Ragnar að það hefði verið að molna undan þeirri valdablokk sem staðið hefði þétt við bak Drífu. Hún væri hluti af blokkinni sem væri að falla og hefði starfað í óþökk mikils meirihluta aðildarfélaga innan ASÍ.

Í samtali við mbl.is í febrúar á þessu ári sagði Ragnar einnig að eitraður kúltúr þrifist innan sambandsins sem aldrei væri hægt að losna við. Þá var það fullreynt af hans hálfu að reyna að vinna að uppbyggilegum málum á vettvangi ASÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert