Gríðarlega mikil vanlíðan í forystu flokksins

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/Árni Sæberg

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir gríðarlega mikla vanlíðan vera í forystu flokksins fyrir norðan og víðar innan flokksins vegna ágreiningsins sem kom upp milli flokksmanna á Akureyri.

„Ég tek þetta mjög nærri mér og við öll stjórnin, og við gerum allt sem í okkar valdi stendur til þess að reyna að lægja þessar öldur, það er bara þannig,“ segir Inga í samtali við mbl.is.

Í gær sendu efstu konur á lista Flokks fólks­ins á Ak­ur­eyri frá sér yfirlýsingu þar sem þær segjast hafa verið sí­fellt lít­ilsvirt­ar og hunsaðar af karl­kyns for­ystu flokks­ins og aðstoðarmönn­um henn­ar.

Yfirlýsingin kom í kjölfar þess að Guðmund­ur Ingi Krist­ins­son, vara­formaður Flokks fólks­ins, birti stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hann sagðist hafa heyrt fregn­ir af því að kven­kyns leiðtog­ar flokks­ins og sjálf­boðaliðar á Ak­ur­eyri hafi sætt „ótrú­lega niðrandi og fyr­ir­lit­legri fram­komu“ að und­an­förnu frá ákveðnum trúnaðarmönn­um flokks­ins.

Stefna á ferð til Akureyrar

Aðal­stjórn Flokks fólks­ins fundaði í gær­kvöldi vegna málsins, en að sögn Ingu fékkst engin niðurstaða þar.

„Við vorum bara að taka heildstætt á þessu og undirbúa næstu skref, það var nú bara það.“

Stjórn flokksins stefnir á að fara á næstunni til Akureyar og hitta þá sem skipa sæti á lista flokksins. Aðspurð segir Inga að engum verði vísað frá á meðan málið er til skoðunar. 

„Það er langt frá því að við séum að ræða eitthvað svoleiðis.“

Sumar hafi mátt þola kynferðislegt áreiti

Í yfirlýsingu kvennanna sem minnst var á hér að ofan kom einnig fram að sumar þeirra hafi mátt „sæta kyn­ferðis­legu áreiti og virki­lega óviðeig­andi fram­komu til viðbót­ar við að vera sagðar ekki starf­inu vaxn­ar og geðveik­ar.“

Í frétt Vísis kemur fram að Inga hafi þvertekið fyrir að nokkur í forystusveit flokksins á Akureyri hafi verið sakaður um kynferðislegt áreiti.

Spurð út í þessi ummæli kveðst Inga hafa átt við að ekki væri búið að kæra fyrir kynferðislegt áreiti.

„Það hefur enginn verið kærður fyrir það þó að þær hafi upplifað áreiti og vanlíðan. Það hefur ekki ratað til lögreglu en það væri réttur vettvangur ef því er að skipta en það er ekki á borði Flokks fólksins.“

Vilja að öllum líði vel

„Auðvitað viljum við að öllum líði vel. Þannig við þurfum bara að laga þetta vegna þess að þetta eru glæsilegir forstufulltrúar sem við eigum fyrir norðan. Og þvílíkur sigur, við höfum aldrei unnið svona glæsilegan kosningasigur, Flokkur fólksins úti á landi. Þetta er í fyrsta sinn sem við bjóðum okkur fram úti á landi og við vinnum frækilegan sigur. Það er þessu fólki að þakka,“ segir Inga að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert