Reiðhjólum ætluðum flóttafólki stolið í skjóli nætur

Ljósmynd/Aðsend

„Við urðum fyrir áfalli í dag þegar við uppgötvuðum að það var brotist inn í aðstöðuna okkar,“ segir Birgir Fannar Birgisson, formaður reiðhjólabænda um þjófnað sem var framinn í húsnæði samtakanna í nótt.

Birgir ásamt fleiri meðlimum Reiðhjólabænda hafa unnið í húsnæðinu við Sævarhöfða í Reykjavík í þó nokkurn tíma og hafa þar gert við ónýt reiðhjól til að gefa hælisleitendum og flóttafólki ókeypis.

„Það var einhver sem sá ástæðu til að fjarlægja héðan fullt af búnaði, verkfærum og reiðhjólum í skjóli nætur,“ segir Birgir sem harmar það að reiðhjólin rati ekki á ætlaðan stað.

Hafa gefið 400 hjól í sumar

Birgir segir eitt það furðulegast við málið vera að engin ummerki séu um innbrot hjá verkstæðinu. „Það er ómögulegt að sjá hvernig þetta vildi til,“ segir hann. Bendir Birgir á að þau séu búin að gefa 400 hjól síðan í sumar sem hefur allt verið unnið með sjálfboðavinnu og greitt úr vasa meðlima samtakanna. Hann segir það því sorglegt að einhver sjái ástæðu til að ræna starfsemi sem er byggð á góðvild og hjálp.

„Það er ýmislegt sem vantar og síðan eru hérna gosdósir og annað sem við könnumst ekki við. Það er greinilegt að hér var umgangur í einhvern tíma. Allar skúffurnar í húsinu standa opnar og síðan er búið að tæma úr öllum fataskápunum okkar,“ segir Birgir um aðkomuna að húsnæðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert