„Bragi Valdimar, hjálp!“

Klám getur birst í ýmsum myndum en sem dæmi geta æsandi hlaðvörp flokkast undir slíkt. Orðið klám getur aftur á móti verið mjög gildishlaðið sem gerir það að verkum að fólk veigrar sér heldur við því að nota það þegar efni sem ekki myndi flokkast undir hið hefðbundna klám er til umræðu.

„Við erum bara í orðavandræðum. Bara Bragi Valdimar, hjálp! Komdu inn í þetta,“ segir kynfræðingurinn Sigríður Dögg Arnardóttir, betur þekkt sem Sigga Dögg, þegar hún ræðir þessi orðavandræði í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins. 

Femínískt-klám

Í þættinum kemur Sigga Dögg einnig inn á það sem sumir myndu kalla femínískt-klám, þar sem framleiðendur nálgast framleiðslu efnisins með femínískum hætti, líkt og nafnið gefur til kynna. Hugað er þá að ýmsum þáttum á borð við kynjahlutfall starfsfólks, vellíðan þeirra sem leika o.s.frv..

„Við þurfum kannski að fara að lyfta upp þeim sem eru að reyna að vera mótvægi, þeim sem eru að reyna að segja: „Hey, það er allt í lagi að sýna fólk að gera það, en það skiptir máli hvernig það er gert og hver gerir það.“ Skilur þú mig? Þannig ég er búin að vera að reyna líka svona að toga í það,“ segir Sigga Dögg.

Kynfræðingurinn segir að athyglisvert verði að fylgjast með þeim breytingum sem munu eiga sér stað þegar konur fara að taka sér pláss í þessum karllæga bransa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert