Tvöfaldar ráðstöfunartekjur efstu tíundar

Kristrún Frostadóttir á Alþingi.
Kristrún Frostadóttir á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir ríkisstjórnina hafa náð vel saman um aðgerðir og að enginn þurfi að hafa áhyggjur af því að ekki sé samstaða þar um áherslurnar í fjárlagafrumvarpinu.

Þetta kom fram í svari hans við spurningu Kristrúnar Frostadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar á Alþingi.

Kristrún sagði samstarfskonur Bjarna í ríkisstjórninni, þær Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, hafa talað fyrir annarri forgangsröðun en komi fram í frumvarpinu. Þ.e. að sækja meira fjármagn í fjármagnstekjur, stórútgerð og hvalrekaskatta.

Kristrún spurði hvort Bjarni hafi sannfært samstarfsráðherra sína um ágæti sinnar leiðar. 

Bjarni sagði ríkisstjórnina hafa tryggt öllum tekjutíundum aukinn kaupmátt. Hann sagði Samfylkinguna tala um að ríkisstjórnin vegi að heimilum á sama tíma og ríkisstjórnin hafi lækkað skatta um sem nemur 10 þúsund krónum á mánuði.

„Það þarf enginn að hafa áhyggjur af því að í stjórninni sé ekki samstaða um fjárlagaáherslurnar,” sagði hann.

Kristrún bætti við að ráðstöfunartekjur efstu tekjutíundar á Íslandi hafi í fyrra aukist tvöfalt á við allar aðrar tíundir. 52% aukning hafi orðið í fjármagnstekjum í fyrra, sú mesta síðan 2007.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert