Kveðst íhuga að stefna konunum fyrir meiðyrði

Hjörleifur Hallgríms Herbertsson.
Hjörleifur Hallgríms Herbertsson. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Hjörleifur Hallgríms Herbertsson, yfirlýstur „guðfaðir“ framboðslista Flokks fólksins á Akureyri, kveðst íhuga að kæra Málfríði Þórðardóttur, Hannesínu Scheving og Tinnu Guðmundsdóttur, þrjár konur sem allar voru á lista flokksins Akureyri í vor, fyrir meiðyrði.

Þetta segir í pistli sem Hjörleifur birti á akureyri.net í kvöld. Hjörleifur kallar konurnar „svikakvensur“ og segir „sorgarumfjöllunina“ sem hafi verið í fjölmiðlum að undanförnu „að stórum hluta lygar og óhróð“.

Konurnar hafa ásakað Hjörleif um kynferðislegt áreiti og óviðurkvæmilega hegðun í sinn garð. Þær komu fram á blaðamannafundi í dag þar sem þær lýstu samskiptum sínum við hann og aðra menn innan flokksins, Brynjólf Ingvarsson og Jón Hjaltason. Mennirnir hafa neitað allri sök í málinu.

Forystan tekið undir ósómann

Hjörleifur segir að fólk hafi komið að máli við hann og lýst einni konunni sem varasamri á geði og að hún hafi verið undir handleiðslu geðhjúkrunarfólks, en bendir jafnframt á að hann selji það ekki dýrar en hann keypti.

„Stundum heimsækja mig konur án hræðslumerkja enda fer vel á með okkur og þær verða ekki varar við kynlífstilburði af minni hálfu,“ skrifar Hjörleifur einnig.

Þá endar hann pistilinn með þeim orðum að hann hyggist ekki einungis stefna konunum fyrir meiðyrði heldur líka fyrir kynferðisofbeldi og ætli mögulega að láta þau Ingu Sæland, formann flokksins, og Guðmund Inga Kristinsson, varaformann, vera með í stefnunni en Hjörleifur segir þau hafa „tekið dyggilega undir ósómann“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert