„Þurftum að fara varlega með vatn“

Ari segir þak hússins einkum hafa orðið fyrir tjóni en …
Ari segir þak hússins einkum hafa orðið fyrir tjóni en ekki hafi farið mikill reykur inn í sjálft húsnæðið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við fengum tilkynningu um bruna í húsi á Fiskislóð um hálffjögurleytið í nótt og þar reyndist vera eldur í þaki. Þarna voru tveir starfsmenn að prufukeyra ofn til að bræða hraun og gríðarlegur hiti sem fylgdi því.“

Þetta segir Ari Jóhannes Hauksson, varðstjóri hjá slökkviliðinu, um bruna í húsnæði Icelandic Lava Show á Fiskislóð í nótt sem tók um fjóra tíma að slökkva. „Þarna kviknaði í hluta af þakinu og við þurftum að rífa í kringum skorsteininn, það voru eitthvað um tuttugu fermetrar,“ segir Ari en mannskapur af öllum stöðvum, um 25 manns að hans sögn, fór á staðinn.

„Það var gríðarlegur hiti í þessum ofni og við þurftum …
„Það var gríðarlegur hiti í þessum ofni og við þurftum að fara varlega með vatn,“ segir varðstjórinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ari segir slökkvistarf hafa gengið ágætlega og litlar vatnsskemmdir orðið innandyra. Mikil mildi hafi verið að starfsmennirnir voru á staðnum og hringdu í slökkvilið er þeir urðu eldsins varir.

„Það var gríðarlegur hiti í þessum ofni og við þurftum að fara mjög varlega með vatn þar sem við vildum ekki missa vatn ofan í ofninn og hætta á gufusprengingu. Við urðum því að slökkva þetta frekar varlega en við náðum tökum á eldinum nokkuð fljótt,“ segir Ari.

Lögreglubifreið á vettvangi í morgun.
Lögreglubifreið á vettvangi í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann segir ekkert tjón hafa orðið á nágrannabyggingum og lítill reykur farið inn í rými Lava Show, aðaltjónið sé á þakinu þótt alltaf fari einhver reykur og vatn inn í sjálfa bygginguna sem brennur. „En sem betur fer var það ekki mikið í þetta skiptið,“ segir Ari Jóhannes Hauksson varðstjóri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert