Fjögur krabbamein tengdust mengun

Fjögur tilfelli nýrnakrabbameins í Reykjanesbæ tengdust þó TCE-mengun.
Fjögur tilfelli nýrnakrabbameins í Reykjanesbæ tengdust þó TCE-mengun. mbl.is/Sigurður Bogi

Aukið nýgengi krabbameina á Suðurnesjum má að mestu rekja til lifnaðarhátta, fremur en mengunar frá herstöðinni sem þar var staðsett.

Fjögur tilfelli nýrnakrabbameins í Reykjanesbæ tengdust þó mengun af völdum Trichloroethene (TCE) í drykkjarvatni, á 56 ára tímabili, á árunum 1955 til 2010. Staðfest samband er milli TCE-mengunar og nýrnakrabbameins. 

Þetta kemur fram í rannsókn Krabbameinsfélagsins á krabbameinum í Reykjanesbæ.

Eitt af sex vatnsbólum í Keflavík og Njarðvíkum hafði TCE-styrk yfir viðmiðunarmörkum við mælingar árið 1988. Mikið magn TCE var í vökva sem notaður var til þvotta á herflugvélum varnarliðsins á flugvellinum og rann það niður í grunnvatnið.

Daglegar reykingar og ofþyngd oftast orsakavaldurinn

Íbúar á Suðurnesjum hafa í áratugi búið við ótta um að efnamengun frá herstöðinni, hvar Bandaríkjaher hafði viðveru á árunum 1951 til 2006, geti hafa valdið aukinni tíðni krabbameina á svæðinu. Þeir hafa ítrekað vakið athygli á málefninu og nýlega var lögð fram þingsályktunartillaga þar sem hvatt var til að málið yrði rannsakað.

Áætlað er að allt að 198 tilfelli krabbameina sem greindust í Reykjanesbæ á tímabilinu 2011 til 2020 tengist lifnaðarháttum. Þar af má rekja 140 tilfelli til daglegra reykinga, 11 tilfelli til áfengisneyslu og 47 tilfelli til offitu eða ofþyngdar. 

Leitað að rokgjörnum efnum 1988

Reykingar og ofþyngd voru algengari í Reykjanesbæ á rannsóknartímabilinu miðað við aðra staði á landinu en aftur á móti var áfengisneysla ekki meiri í Reykjanesbæ en annars staðar.

Rýndi Krabbameinsfélagið í viðamikla skýrslu Verkís frá árinu 1988, þar sem skráðar eru niðurstöður mælinga á rokgjörnum leysiefnum, sem leitað var að í vatnsbólum í nágrenni herstöðvarinnar, meðal annars í Keflavík, Ytri-Njarðvík og Innri-Njarðvík.

Eftir að orsakasambands áhættuþáttarins og krabbameinsins var staðfest var stuðst við mælikvarða Alþjóðakrabbameinsrannsóknarstofnunarinnar og komist að því að tímabil útsetningar hafi verið 20 árum áður en krabbameinstilfellin greindust.

Nýtt ómengað vatnsból og því lítil hætta á ferðum

Af þeim 28 efnum sem leitað var að telst aðeins eitt til staðfestra krabbameinsvalda, áðurnefnt Trichloroethene (TCE), sem eykur áhættu á nýrnakrabbameini. Krabbameinstilvikin fjögur samsvara 0,7 tilfellum á hverjum tíu árum að meðaltali. Ólíklegt er að fleiri slík tilfelli komi upp þar sem nýtt, ómengað vatnsból var tekið í gagnið fyrir íbúabyggð á Suðurnesjum árið 1991.

Krabbameinsvaldandi áhrif umhverfismengunar voru mun minni í vatnsbólum Reykjanesbæjar en óttast var, að því er fram kemur í skýrslunni. Árið 2007 voru daglegar reykingar í heildina komnar niður í 18,3% samkvæmt heimasíðu embættis landlæknis og árið 2021 niður í 7,25%. „Þessi þróun hefur komið í veg fyrir mikinn fjölda krabbameina og mun halda áfram að gera það næstu áratugi,“ segir í skýrslunni.

Óheillaþróun hvað varðar offitu

Á meðan dregið hefur úr reykingum á landsvísu segir Krabbameinsfélagið að óheillaþróun eigi sér nú stað að því er snýr að offitu.  

„Stjórnvöld bera mikla ábyrgð á því að haga aðgerðum sínum í takt við stefnumótun um lýðheilsu og auðvelda einstaklingum og fjölskyldum ákvarðanir varðandi lifnaðarhætti sem eru til þess fallnir að draga úr krabbameinum. Það nýtist einnig gegn öðrum sjúkdómum,“ segir í lokaorðum skýrslunnar.

Fréttin hefur verið uppfærð.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert