Svöruðu spurningum um saltdreifarann

Einn fimmmenninganna (í miðjunni) mætti í dómsal í morgun en …
Einn fimmmenninganna (í miðjunni) mætti í dómsal í morgun en bar ekki vitni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tólf manns voru kallaðir til skýrslutöku í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun í máli fimmmenninga sem eru ákærðir fyrir skipulagða brotastarfsemi og stórfelld fíkniefnalagabrot, svokölluðu saltdreifaramáli. 

Fram kemur í ákærunni að þrír þeirra hafi í byrjun árs 2020 staðið saman að innflutningi á saltdreifara, sem í voru faldir 53 lítrar af amfetamínvökva, hingað til lands með Norrænu frá Hollandi í félagi með tveimur óþekktum erlendum aðilum. Menn­irn­ir þrír hafi tekið á móti tæk­inu og fíkni­efn­un­um hér­lend­is og geymt á Hellu. Í sam­vinnu við óþekkt­an ís­lensk­an aðila hafi þeir fjar­lægt am­feta­mín­vökv­ann úr salt­dreifar­an­um og fram­leitt allt að 117,5 kg af am­feta­míni í sölu- og dreif­ing­ar­skyni.

Mennirnir þrír neituðu því allir að hafa staðið að innflutningi á saltdreifaranum fyrir héraðsdómi í fyrradag. Enginn hinna ákærðu bar vitni í morgun. 

Sumir þeirra sem báru vitni í morgun gerðu það í gegnum fjarskiptaforrit eða með símtali á meðan aðrir mættu í dómsalinn. Þar sátu þeir mislengi og svöruðu spurningum sækjanda og verjenda.

Jón Magnússon, einn verjendanna, í dómsal í morgun.
Jón Magnússon, einn verjendanna, í dómsal í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sóttur til Þorlákshafnar

Fyrrverandi starfsmaður Smyril Line var á meðal þeirra vitna sem voru spurð út í saltdreifarann. Hann sagðist hafa farmskráð sendinguna þegar hún kom til landsins frá Hollandi. Óeðlilegt hafi verið að ekki náðist í þann sem virtist eiga að fá saltdreifarann.

Sölumaður innflutningsfyrirtækisins greindi frá því að erlendur vélasali hafi selt útlensku fólki saltdreifara, sem væri staðsettur á bryggjunni í Þorlákshöfn og enginn hafi tekið á móti honum. Vildi hann því selja saltdreifarann öðrum og spurði hvort sölumaðurinn gæti selt hann fyrir sig. Síðar sagðist erlendi vélasalinn hafa náð í kaupanda.

Greint var frá því síðar við skýrslutökurnar að saltdreifarinn hafi á endanum verið sóttur á opið svæði á bryggjunni í Þorlákshöfn.

Anna Barbara Andradóttir aðstoðarsaksóknari ásamt Sigurði G. Guðjónssyni verjanda í …
Anna Barbara Andradóttir aðstoðarsaksóknari ásamt Sigurði G. Guðjónssyni verjanda í dómsal í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Baðst undan skýrslugjöf

Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn var kallaður inn sem vitni í tengslum við bílskúr í Hafnarfirði. Einn fimmmenninganna er ákærður fyrir að hafa geymt þar ýmis fíkniefni í sölu- og dreifingarskyni, þar á meðal amfetamín, kókaín og MDMA.

Eiginkona eins þeirra sem ákærðir eru í málinu var einnig kölluð inn sem vitni en hún baðst undan því að gefa skýrslu og fékk því að fara án þess að svara spurningum.

Sigurður G. Guðjónsson (til vinstri) og Stefán Ragnarsson í héraðsdómi …
Sigurður G. Guðjónsson (til vinstri) og Stefán Ragnarsson í héraðsdómi í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðalmeðferð í málinu, sem hófst á mánudaginn, átti að ljúka í dag með málflutningi verjenda og sækjanda. Verjendur sögðust tilbúnir til að flytja málið í dag en sækjandi óskaði eftir fresti. Ákvað dómarinn Barbara Björnsdóttir að fresta málflutningi þangað til í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert