„Mjög auðvelt að prenta byssur með þrívíddarprentara“

„Til að prenta hlut með þrívíddarprentara þarf fyrst að búa …
„Til að prenta hlut með þrívíddarprentara þarf fyrst að búa til þrívíddarteikningu af hlutnum,“ segir Paolo. Myndin er úr safni.

„Það er mjög auðvelt að prenta byssur með þrívíddarprentara, jafn auðvelt og að setja upp iPhone.“

Þetta segir dr. Paolo Gargiulo, prófessor í heilbrigðisverkfræði við Háskólann í Reykjavík, í samtali við mbl.is. Paolo hefur meðal annars þróað þrívíddarprentunartækni fyrir Landspítalann til notkunar í klínískum aðgerðum.

Greint var frá því fyrr í dag að mennirnir sem handteknir voru vegna gruns um að undirbúa hryðjuverkarárás séu grunaðir um að fram­leiða íhluti í vopn með þrívídd­ar­prent­ara.

Teikningar í dreifingu á netinu

„Til að prenta hlut með þrívíddarprentara þarf fyrst að búa til þrívíddarteikningu af hlutnum. Það er mikið af svoleiðis teikningum í dreifingu á netinu sem tilbúin eru til þrívíddarprentunar,“ segir Paolo. 

„Ég geri ráð fyrir allar þessar byssur séu einfaldlega eitthvað sem hægt er að finna á netinu. Þá er hægt að hlaða niður skjölunum og nóg að nota þrívíddarprentara sem passar til að prenta viðkomandi skjöl.“

Dr. Paolo Gargiulo, prófessor við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík.
Dr. Paolo Gargiulo, prófessor við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík.

Engin leið að stöðva þrívíddarprentun vopna

Ekki er vitað hvers kyns byssur mennirnir höfðu í fórum sér. Paolo segir að svokallaðir FDM-þrívíddarprentarar, sem geta kostað frá 50 þúsund upp í eina milljón íslenskra króna og hægt er að panta á netinu, séu mjög auðveldir í notkun.

Paolo er ekki skotvopnasérfræðingur en telur þó að skotfæri sem prentuð eru með FDM-tækni séu líklega ekki nógu kraftmikil til að geta orðið manni að bana.

„Yfirleitt eru byssur ekki prentaðar í heilu lagi. Íhlutir eru prentaðir og svo settir saman. „Ég geri ráð fyrir að þeir hafi prentað litla hluti og sett þá saman eins og legó,“ segir Paolo og bætir við að margir hér á landi eigi slíka prentara heima hjá sér.

Þá segir Paolo að engin leið sé til að stöðva að fólk þrívíddarprenti hættuleg vopn. 

„Staðreyndin er sú að það er engin leið að stöðva einhvern sem vill þvívíddarprenta eitthvað sem gæti valdið fólki skaða. Það væri eins og að segja barni að byggja ekki kirkju eða hótel úr legókubbum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert