Gjaldskrá Strætó hækkuð um 12,5%

Nýja gjaldskráin tekur gildi um mánaðamótin.
Nýja gjaldskráin tekur gildi um mánaðamótin. mbl.is/Hari

Um næstu mánaðamót mun ný gjaldskrá Strætó taka gildi, en hækkun hennar nemur 12,5%. Stök fargjöld og tímabilskort munu öll taka sömu verðbreytingu, en sem dæmi hækkar stakt fargjald úr 490 krónum í 550 krónur. Þá hækkar 30 daga nemakort úr 4.000 krónum í 4.500 krónur.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að gjaldskráin hafi verið samþykkt á fundi stjórnar 16. september. Á verðhækkunin að mæta almennum kostnaðarverðshækkunum á aðföngum Strætó, svo sem á olíu og kostnaði vegna vinnutímastyttingar. Segir í tilkynningunni að vinnutímastyttingin hafi haft veruleg áhrif á reksturinn. Þá gæti enn áhrifa heimsfaraldursins í rekstrinum og útlit er fyrir að uppsöfnuð áhrif á tekjur félagsins yfir faraldurinn sé á bilinu 1,5 til 2 milljarðar.

Þá er tekið er fram að gjaldskráin hafi verið óbreytt frá áramótunum 2020/2021. Í millitíðinni hafi reyndar Klapp, rafrænt greiðslukerfi, verið innleitt og gjaldskráin einfölduð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert