Lagt til að björgunarsveitafólk fái skattaafslátt

Í greinargerð með frumvarpinu segir að kostnaður sjálfboðaliða hafi sífellt …
Í greinargerð með frumvarpinu segir að kostnaður sjálfboðaliða hafi sífellt hækkað og tilgangurinn sé að koma til móts við. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sex þingmenn Pírata leggja til í frumvarpi að einstaklingar sem taka þátt í sjálfboðaliðastarfi á vegum lögaðila, líkt og björgunarsveitastarfi, fái skattaafslátt og jafnframt virðisaukaskatt af björgunarbúnaði endurgreiddan.

Lagt er til í frumvarpinu, sem fjallar um breytingu á lögum um tekjuskatt og virðisaukaskatt, að draga megi frá 675 krónur fyrir hverja klukkustund sem fólk ver í sjálfboðaliðastarf til almannaheilla. Afslátturinn verði að hámarki 500 þúsund krónur á ári og verði ekki millifæranlegur á milli hjóna eða sambúðafólks. Tekið er fram að til sjálfboðaliðastarfs teljist þátttaka í æfingum, námskeiðum og útköllum.

Kostnaður sjálfboðaliða sífellt hækkað

Í greinargerð með frumvarpinu segir meðal annars að undanfarin ár hafi reynst erfiðara fyrir björgunarsveitir og önnur samtök sem vinna í þágu almannaheila að afla nýrra sjálfboðaliða, sem og halda sjálfboðaliðum virkum.

„Kostnaður sjálfboðaliða hefur sífellt hækkað, svo sem vegna búnaðar, þátttöku á æfingum o.fl. Frumvarpi þessu er ætlað að koma til móts við þennan kostnað sjálfboðaliða og þar með hvetja fólk til þess að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi til almannaheilla. Þá má einnig nefna að álag á björgunarsveitir hefur aukist töluvert undanfarin ár vegna stóraukins fjölda ferðamanna.“

Auðvelt að afla tímaskýrslna

Í greinargerðinni segir einnig að þar sem störf sjálfboðaliða séu alfarið unnin í sjálfboðavinnu þyki réttara að útfæra endurgreiðslu í formi skattaafsláttar í stað beinna launagreiðslna. Hugmyndin eigi rætur sínar að rekja til sambærilegs skattaafsláttar í Bandaríkjunum.

„Samtök sem starfa í þágu almannaheilla halda vel utan um þátttöku á æfingum og aðgerðum í gegnum svokallaðan aðgerðagrunn. Því væri unnt með einföldum hætti að afla tímaskýrslna þegar skattárið er gert upp.“

Jafnframt er tekið fram að björgunarsveitir landsins búi yfir gríðarlegri sérþekkingu sem þær hafi aflað víða. Mikilvægt sé að hlúa að því góða starfi sem hafi verið byggt upp hérlendis á undanförum áratugum. Þá hafi hlutverk mannúðar- og líknarstarfsemi aukist jafnt og þétt undanfarin ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert