Lyfjabirgðir gætu orðið áskorun á hættustundu

Lyfjabirgðir hafa farið minnkandi síðastliðin ár hér á landi.
Lyfjabirgðir hafa farið minnkandi síðastliðin ár hér á landi. mbl.is/Sverrir

Miklar breytingar hafa orðið á innlendum og erlendum lyfjamarkaði sem hafa ýmsar áskoranir í för með sér. Lyfjabirgðir hafa farið minnkandi síðastliðin ár hér á landi og verður það að teljast áskorun á hættustundu. Tryggja þarf aðgang Íslendinga að eftirsóttum lyfjum á slíkum tíma með þátttöku í Evrópu- og norrænni samvinnu. 

Þetta kemur fram í skýrslu um nauðsyn­leg­ar birgðir til þess að tryggja lífsaf­komu þjóðar­inn­ar á hættu­tím­um sem starfshópur hefur nýlega skilað til forsætisráðherra.

Skýrsl­an, sem unn­in er með vís­an til stefnu stjórn­valda í al­manna­varna- og ör­ygg­is­mál­um, hef­ur verið kynnt í rík­is­stjórn og rædd í þjóðarör­ygg­is­ráði.

Framleiðsla færst í auknum mæli til Indlands

Innlend lyfjaframleiðsla hefur verið flutt úr íslenskum apótekum í innlendar lyfjaverksmiðjur sem hafa síðan sameinast og flust úr landi. Íslendingar þurfa að reiða sig nær eingöngu á innflutning lyfja sem hefur áhrif á birgðahald. Þá hefur evrópsk lyfjaframleiðsla bæði á endanlegu lyfjaformi og virkum innihaldsefnum færst í auknum mæli til Indlands og Kína. Gerir það allar aðfangakeðjur viðkvæmari á hættustundu, að því er fram kemur í skýrslunni. 

Íslenski lyfjamarkaðurinn er skilgreindur sem örmarkaður og er því ekki framarlega í forgangsröðun þegar kemur að því að framleiða pakkningar fyrir stærri málsvæði og markaðssvæði sem gefa meira af sér.

Tryggja þurfi að lyf séu til á réttum tíma

Meginbirgðir lyfja á Íslandi er að finna hjá lyfjaheildsölum. Þeir eru á hverjum tíma með innan við mánaðarbirgðir af almennum lyfjum og tveggja mánaða birgðir af samningsbundnum lyfjum, þ.e. lyf sem samningur er um við heilbrigðisstofnanir. Vökvabirgðir eru til allt að þriggja mánaða.

Í skýrslunni segir að lágmarksbirgðir lyfja séu að jafnaði í landinu ef undanskilin eru samningslyf. Tryggja þurfi að rétt lyf séu til á réttum tíma í réttu magni. 

Myndum hagnast af því að vera hluti af stærri markaði

Þá kemur einnig fram að ef Ísland væri hluti af stærri markaði myndi afhendingaröryggi lyfja aukast. Í heimsfaraldrinum hafi Ísland t.d. haft aðgengi að eftirsóttum lyfjum til að meðhöndla Covid-19 í gegnum European Joint Procurement á vegum Evrópusambandsins. Þá hafi Ísland einnig haft aðgan að innkaupum Evrópusambandsins á bóluefnum í gegnum Svía. 

„Nú er HERA (Health Emergency Preparedness and Response Authority) að taka yfir þessi innkaup og hvatt er til þess að Íslendingar fylgi fordæmi Norðmanna og reyni að tryggja sér aðgang að því samstarfi. Íslendingar hafa eins og Norðmenn verið hluti af samstarfi EU4 Health. Í gegnum Norðurlandasamstarfið er einnig verið að huga að heilbrigðisviðbúnaði og er t.d. nýlega lokið við að kortleggja getu Norðurlanda til bóluefnaframleiðslu,“ segir í skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert