Hafa opnað fyrir umferð um Keflavíkurflugvöll

Opnað hefur verið fyrir umferð um Keflavíkurflugvöll á ný.
Opnað hefur verið fyrir umferð um Keflavíkurflugvöll á ný. mbl.is/Kristinn Magnússon

Búið er að opna fyrir umferð um Keflavíkurflugvöll á nýjan leik. Allri umferð til og frá vellinum var frestað í gær eftir að hótun barst um að sprengja væri um borð í fraktflugvél sem lenti á vellinum.

Fjöldi flugvéla sem var á leið yfir Atlantshafið varð vegna þessa að snúa við en sumar hringsóluðu við landið.

Í tilkynningu sem lögreglustjórinn á Suðurnesjum sendi frá sér á þriðja tímanum í nótt segir að áætlað hafi verið að opna flugvöllinn aftur klukkan 03.00 í nótt.

Samkvæmt upplýsingum á isavia.is eru flugvélar dagsins á áætlun og auk þess hefur fjöldi véla lent á Keflavíkurflugvelli og farið frá vellinum í morgun.

Barst tilkynning um sprengjuhótun í gærkvöldi

Í tilkynningunni segir að lögreglu hafi klukkan 22.47 í gærkvöldi borist tilkynning um sprengjuhótun um borð í fraktflutningavél af gerðinni Boeing 747 sem var á leið frá Köln í Þýskalandi til Kentucky í Bandaríkjunum.

Þegar tilkynningin var send voru aðgerðir viðbragðsaðila enn í gangi á vettvangi og voru sprengjusérfræðingar sérsveitar ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslan að störfum í vélinni. Unnið er samkvæmt sérstakri neyðaráætlun vegna flugverndar fyrir Keflavíkurflugvöll í tilfellum sem þessum.

Þá kom fram að engin sprengja hefði fundist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert