„Dýr ráðstöfun“ en felur í sér hagræði

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að stefna stjórnvalda um að ráðuneytin séu staðsett á svokölluðum stjórnarráðsreit eða þar um kring í miðbæ Reykjavíkur sé „ansi dýr ráðstöfun“. Hún feli engu að síður í sér mikið hagræði.

Greint var frá því í gær að ríkið hefði fest kaup á Norðurhúsi við Austurbakka af Landsbankanum. Byggingin er tæpir sex þúsund fermetrar og er kaupverðið áætlað um sex milljarðar króna, sem þýðir um eina milljón á hvern fermetra.

Eykur ekki þenslu

Spurð að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun af hverju ríkið kaupi svona dýrt skrifstofuhúsnæði, á sama tíma og rætt hefur verið um mikilvægi þess að ríkið standi á útgjaldabremsunni til að stemma stigu við verðbólgunni, segir Katrín að málið hafi í fyrsta lagi verði metið þannig að umrætt hús sé þegar byggt. Því séu kaupin ekki til þess fallin að auka þenslu. Þetta snúist um að finna notagildi fyrir hús sem sé þegar risið.

Í öðru lagi, þegar kemur að fjármögnuninni, segir hún að Landsbankinn hafi ákveðið að greiða ríkinu viðbótararðgreiðslu sem nemur einmitt sex milljörðum króna.

Stuðlaberg er komið á hluta nýbyggingar Landsbankans.
Stuðlaberg er komið á hluta nýbyggingar Landsbankans. mbl.is/Árni Sæberg

Ráðuneytin á stjórnarráðsreit

Katrín bætir við að utanríkisráðuneytið missi senn sitt húsnæði. Ráðuneytið er í tveimur húsum á Rauðarárstíg, þar af öðru sem er leiguhúsnæði „sem það mun sannarlega missa“.

„Þetta er stórt og mikið ráðuneyti þannig að við mér blasir, sem yfirmanni húsnæðismála Stjórnarráðsins, að finna ráðuneytinu helst varanlegt húsnæði. Okkar stefna hefur verið sú að ráðuneytin eigi að vera á því sem við köllum stjórnarráðsreit eða þar í kring, þ.e. hér í miðbæ Reykjavíkur. Sannast sagna þá er það ansi dýr ráðstöfun, það þýðir ekkert að draga neina fjöður yfir það. En það er stefnan og hún hefur í för með sér mikið hagræði,“ greinir Katrín frá.

Utanríkisráðuneytið við Rauðarárstíg.
Utanríkisráðuneytið við Rauðarárstíg. mbl.isKristinn Ingvarsson

Hún nefnir að aðrir möguleikar hafi verið skoðaðir eins og hvað það myndi kosta að byggja nýtt húsnæði í miðbæ Reykjavíkur en kostnaðurinn við það hefði líka verið mjög mikill. Einnig hafi möguleikinn á því að leigja Norðurhús verið skoðaður en niðurstaðan varð sú að vera í varanlegu húsnæði fremur en að vera leigutaki, sem myndi jafnframt vera dýrara til lengri tíma litið.

Ekki lokaskrefið

„Þetta er flókin ákvörðun að taka en einhvern veginn þarf að höggva á þann hnút og finna öllum ráðuneytum viðeigandi húsnæði. Það eru fyrir þessu fjárheimildir í fjárlögum, að finna húsnæði, og þetta er ekki lokaskrefið í endurskoðun húsnæðismála Stjórnarráðsins,“ bætir hún við. Hún nefnir að verið sé að gera upp sjávarútvegshúsið við Skúlagötu og á meðan séu ýmis ráðuneyti í bráðabirgðahúsnæði. Húsnæði fjármálaráðuneytisins hafi undirgengist veglegar endurbætur auk þess sem viðbygging við Stjórnarráðið bíði enn.

„Þannig að mitt fólk er áfram dreift hér í miðbænum í leiguhúsnæði, sem er líka dýrt. Við erum að fikra okkur áfram í þessu að vera með ráðuneytin í góðu húsnæði sem uppfyllir allar kröfur og er á þessum stað.“

Sjávarútvegshúsið við Skúlagötu.
Sjávarútvegshúsið við Skúlagötu. mbl/Arnþór Birkisson

Katrín segir að þar sem Norðurhús sé fallegt og í eigu ríkisins hafi hún lagt til að jarðhæð þess yrði nýtt til menningarstarfsemi, aðgengilega almenningi undir forystu Listasafns Íslands. Lengi hafi skort sýningarrými þar, ekki síst fyrir samtímalist, og þarna séu því slegnar tvær flugur í einu höggi með kaupunum á húsinu.

„Engin hávær mótmæli“

Spurð hvort ríkisstjórnin hafi verið einhuga um þessi kaup segir hún ákvörðunina hvíla hjá sér og að fjármálaráðherra hafi lagt fjárheimildirnar til. „Það voru ýmsar skoðanir uppi en ég kynnti þetta mál fyrir ríkisstjórn á þriðjudag, að þetta væri mín niðurstaða, og engin hávær mótmæli við henni, en það er alveg ljóst að fólk hefur ýmsar skoðanir á þessum húsnæðismálum.“

Gamla Landsbankahúsið við Austurstræti.
Gamla Landsbankahúsið við Austurstræti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Söguleg og glæsileg bygging

Ríkið hefur einnig ákveðið að ganga til samninga við Landsbankann um kaup á gamla Landsbankahúsinu við Austurstræti. Katrín segir bygginguna vera bæði sögulega og glæsilega og að hún eigi skilið hlutverk við hæfi í miðbæ Reykjavíkur. 

„Eitt af því sem hefur verið rætt, án þess að nokkur ákvörðun hafi verið tekin, er að mögulega megi nýta einhvern hluta hennar fyrir dómstóla en það hefur hins vegar engin ákvörðun verið tekin. Nú á eftir að rýna það húsnæði betur en þetta er glæsilegt hús sem er metið í góðu ástandi.“

Landsréttur í Kópavogi.
Landsréttur í Kópavogi. mbl.is/Hanna

Fækka fermetrum 

Aðspurð segir hún kostnaðinn vegna þeirra kaupa vera umtalsverðan en bætir við almennt varðandi húsnæðismál ríkisins að ráðuneyti hafi verið í heilsuspillandi, óhentugu og dýru leiguhúsnæði. „Við erum að fækka fermetrum, við erum að færa fleiri ráðuneyti í eigið húsnæði og við erum að uppfæra nokkuð sem er ekki endilega vinsælt en skiptir auðvitað máli að við búum sæmilega að þessum lykilstofnunum okkar,“ segir hún og nefnir að dómstólar gætu flust í gamla Landsbankahúsið.

Kemur til greina að Landsréttur fari þangað?

„Það er eitt af því sem þarf núna að rýna, það liggur alveg fyrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert