Einn milljarður í Strætó og níu í rafbíla

Tugir milljarða hafa farið í að niðurgreiða rafbíla á síðustu …
Tugir milljarða hafa farið í að niðurgreiða rafbíla á síðustu árum. Samsett mynd

Hægt hefði verið að gera strætisvagnaþjónustu á Íslandi gjaldfrjálsa ef ríkið hefði varið 1,8 milljörðum meira í niðurgreiðslu í fyrra.

Þetta kemur fram í samantekt sem Alþýðusamband Íslands, ASÍ, birti á vef sínum í gær.

Þar er vakin athygli á því að íslensk stjórnvöld hafi sett einn milljarð króna í rekstur Strætó bs. árið 2021, en níu milljarða í niðurgreiðslur á rafmagns- og tengiltvinnbifreiðum.

27,5 milljarðar og gagnast helst þeim efnameiri

Ríkið veitti alls 27,5 milljörðum í skattaívilnanir vegna „vistvænna ökutækja“ á árunum 2012-2022.

Í niðurstöðum frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands segir að ívilnanir vegna rafbílakaupa gagnist helst efnameiri hópum og er aðgerðin talin þjóðhagslega óhagkvæm. 

Fólk með lægri tekjur hefur þá mun minni möguleika á að festa kaup á slíkum bílum, sem eru taldir vistvænni en þeir bílar sem eru eingöngu knúðir áfram af bensíni eða dísilolíu.

Tekjulægri hópar noti almenningssamgöngur í meiri mæli en tekjuhærri hópar.

Engin loftslagsaðgerð jafn dýr

Í grein ASÍ segir einnig að engin loftslagsaðgerð stjórnvalda beri jafn mikinn kostnað og ívilnanir vegna nýorkubíla. Þá er kolefnisfótspor rafbíla mun meira en kolefnisfótspor almenningssamgangna.

Fargjöld Strætó hafa aukist jafnt og þétt á undanförnum árum, en á þriðjudag var greint frá því að Strætó ætli að hækka gjöld um 12,5 prósent um mánaðamótin.

Fargjöld námu 21% tekna Strætó í fyrra en það eru um 1,8 milljarðar króna og eins og áður segir hefði með því auka fjármagni verið hægt að gera þjónustuna gjaldfrjálsa, að öðru óbreyttu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert