Allt saman ömmu að kenna

Ingvar Jóel Ingvarsson er mikill áhugamaður um aflraunir.
Ingvar Jóel Ingvarsson er mikill áhugamaður um aflraunir. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er allt saman ömmu að kenna,“ segir Ingvar Jóel Ingvarsson sposkur á svip þegar talið berst að ástríðu hans fyrir aflraunum.  

„Pabbi dó þegar ég var sjö ára. Á þeim tíma var bara klappað á öxlina á manni og manni sagt að setja í brýnnar og halda áfram. „Þú verður að vera sterkur fyrir mömmu þína!“ Ég á mín augnabliksbrot en satt best að segja man ég lítið eftir pabba sem var sjómaður og mjög hraustur maður. Amma var hins vegar dugleg að segja mér sögur af honum og það kveikti þessa kraftadellu hjá mér. Ég prófaði bæði handbolta og handbolta sem strákur en fann mig ekki fyrr en ég gekk inn í Jakaból 1980, 17 ára gamall. Og hef verið þar síðan. Ég æfi að vísu í World Class í dag en þú skilur hvað ég meina.“

Einn af fyrstu mönnunum sem hann rakst á í Jakabóli var átrúnaðargoðið sjálft, Hreinn Halldórsson kúluvarpari. „Það er stærsti maður sem ég hef nokkurn tíma augum litið. Ég bar út Moggann sem strákur og dáðist alltaf að ljósmyndunum af Hreini. Og þarna var hann allt í einu kominn, ljóslifandi. Svei mér þá ef veröldin stóð ekki bara kyrr eitt augnablik!“

Ingvar Jóel á HM unglinga í kraftlyftingum í Kairó 1983.
Ingvar Jóel á HM unglinga í kraftlyftingum í Kairó 1983.

Hann hlær að þessari ljúfu minningu.

„Hreinn var líka svo mikill öðlingur og tók mér strax vel. Löngu seinna rakst ég aftur á hann á Egilsstöðum, þar sem hann sá lengi um sundlaugina, og hann þekkti mig um leið. Árin höfðu færst yfir en Hreinn var eigi að síður alveg jafn glæsilegur á velli og fyrr. Og gegnheilt góðmenni.“

Nánar er rætt við Ingvar Jóel í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en hann gat sér gott orð á dögunum þegar hann felldi vindmylluna í Þykkvabænum.  

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert