Veitti sér verðlaun fyrir hálfklárað verk

Frá afhendingu verðlaunanna á föstudag.
Frá afhendingu verðlaunanna á föstudag. Ljósmynd/Aðsend

Reykjavíkurborg er á meðal stofnfélaga samtakanna Grænni byggð, sem verðlaunaði á föstudag Reykjavíkurborg fyrir byggingu leikskólans Brákarborgar að Kleppsvegi. 

Georg Atli, deildarstjóri á Brákarborg, segir bygginguna hálfkláraða og furðar sig á því að starfsfólk þurfi að taka á móti börnum við slíkar aðstæður.

Verðlaunin, Græna skóflan, voru veitt í fyrsta skipti en þau á að veita fyrir mannvirki sem byggt hefur verið með framúrskarandi vistvænum og sjálfbærum áherslum.

Dagur B. Eggertsspn, borgarstjóri, tók við verðlaununum á föstudaginn.
Dagur B. Eggertsspn, borgarstjóri, tók við verðlaununum á föstudaginn. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Skrifstofa leikskólastjórans geymsla

„Þessi ræða sem borgarstjóri flytur við afhendingu á þessari viðurkenningu lætur ástandið liggja milli hluta. Það er talað um að allt sé í blóma og að þau séu búin að skila af sér byggingu sem prýði hverfið og bæti úr þörf á leikskólaplássum í Reykjavík,“ segir Georg í samtali við mbl.is.

„Á meðan er staðan sú að húsið er ekki fullbúið og við getum ekki tekið á móti fullri starfsemi í húsinu,“ bætir hann við.

Skrifstofa leikskólastjórans er geymsla auk þess sem fullbúnir iðnaðarmenn og umferð stórvirkra vinnuvéla eru daglegt brauð á leikskólanum.

Enn standa yfir framkvæmdir á leikskólanum.
Enn standa yfir framkvæmdir á leikskólanum. Ljósmynd/Aðsend

Gert að opna

Hvernig ganga framkvæmdirnar?

„Þetta gengur allt voðalega hægt fyrir sig. Húsið opnar 22. ágúst og nú er 1. október og við erum enn þá með ljós sem virka ekki, glugga sem virka ekki, ennþá með loftræstingu sem virkar illa og enn með hálfklárað bílaplan, þar sem stórvirkar vinnuvélar keyra fram og til baka á sama tíma og börnin eru að koma og fara úr leikskólanum.“

Er þetta alveg boðlegt fyrir börnin? Hafa foreldrar kvartað?

„Auðvitað hafa foreldrar áhyggjur af þessu. Þú spyrð hvort þetta sé boðlegt. Okkur var gert að opna. Okkur starfsmönnunum finnst þetta ekki við hæfi. Okkur finnst í raun undarlegt að við séum sett í þessi spor, bæði leikskólastjóri og aðrir að taka á móti börnum í hálfkláruðu húsi þar sem við þurfum að hlaupa á milli herbergja með húsgögn til þess að uppfylla þörfina sem nú er.“

Georg segir verkið hálfklárað.
Georg segir verkið hálfklárað. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Aðstaðan fyrir eldri börn en eru nú

Þá segir Georg húsnæðið upphaflega hafa átt að vera fyrir börn á aldrinum 3 til 6 ára en yngri börn séu innrituð. Aðstaðan, svo sem skiptiaðstaða, staðsetning vaska og klósettaðstaða sé hönnuð fyrir eldri börn en þar eru nú.

„Mér finnst eins og það sé verið að reyna að slá ryki í augun á fólki með því að veita þessi verðlaun,“ segir hann og bætir við að borgin hafi í raun verið að klappa sjálfri sér á bakið, verandi stofnaðili samtakanna.

Hefðuð þið viljað að húsið yrði klárað fyrir opnun?

„Ég held að allir stjórnendur á leikskólanum Brákarborg hefðu viljað flytja í fullbúið hús.“

Fundarherbergi starfsmanna er ennig notað sem geymsla.
Fundarherbergi starfsmanna er ennig notað sem geymsla. Ljósmynd/Aðsend
Leikskólinn Brákarborg.
Leikskólinn Brákarborg. Ljósmynd/Reykjavíkurborg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert