Jóhann með jafntefli gegn Anand

Viswanathan Anand og Jóhann Hjartarson áttust við í fyrstu umferð …
Viswanathan Anand og Jóhann Hjartarson áttust við í fyrstu umferð mótsins. Ljósmynd/Fiona Steil-Antoni

Það var ljóst að það var við ramman reip að draga hjá Víkingaklúbbnum í fyrstu umferð Evrópumóts taflfélaga sem fram fór í gær. Víkingaklúbburinn dróst gegn félaginu CSU ASE Supermet frá Rúmeníu, en hún er sterkasta sveitin á mótinu samkvæmt skákstigum. Teflt er á sex borðum og gerði Jóhann Hjartarson jafntefli á fyrsta borði með hvítu gegn fyrrverandi heimsmeistaranum Viswanathan Anand, en aðrar viðureignir töpuðust. 

Fjórar íslenskar sveitir tefla á mótinu sem fer fram í Mayrhofen í Austurríki. Skákfélag Akureyrar og Taflfélag Reykjavíkur áttust við í fyrstu umferðinni og vann Taflfélag Reykjavíkur með fjórum og hálfum vinningi gegn einum og hálfum. Skáksveit Fjölnis lenti gegn belgísku sveitinni CRELEL Liege og vann þá viðureign með fimm og hálfum vinningi gegn hálfum. Enn fremur teflir Íslendingurinn Óskar Bjarnason með sveit frá Lúxemborg, en hann er búsettur erlendis.

Magnús Carlsen er meðal þátttakenda en hann hefur verið í sviðsljósinu undanfarið vegna ásakana hans um meint svindl bandaríska stórmeistarans Hans Niemann. Carlsen gerði jafntefli í fyrstu umferðinni á Evrópumótinu en liðsfélagar hans í norsku sveitinni Offerspill unnu allir sínar viðureignir. 

Önnur umferð hefst í dag klukkan 12.15 og eru viðureignirnar í beinni útsendingu á ýmsum skáksíðum. Taflfélag Reykjavíkur teflir við sveit frá Slóveníu, Fjölnir við sveit frá Sviss, Skákfélag Akureyrar við norska sveit og Víkingaklúbburinn við sveit frá Írlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert